Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - ÍR 86-82 | Risa sigur hjá Grindvíkingum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir
Grindavík vann ÍR, 86-82, í Dominos-deild karla í körfubolta karla en leikurinn fór fram í Röstinni í Grindavík. Mikil spenna undir lokin en heimamenn sterkari.

Leikurinn hófst nokkuð rólega og voru bæði lið lengi í gang. ÍR-ingar virtust örlítið ákveðnari og gekk sóknarleikur þeirra betur í upphafi. Þegar leið á leikhlutann fór Chuck García, nýr leikmaður Grindavíkur, að taka mikið til sín og opnaði hann vörn ÍR, ýmist með nærveru sinni einni eða með fínum töktum. Grindvíkingar komust meira og meira í takt við leikinn og voru sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Í öðrum leikhluta hélt sama prógrammið áfram og voru ÍR-ingar í stökustu vandræðum varnarlega og sóknarlega. Það sem var jákvætt fyrir þá var að Grindvíkingar voru ekkert sjóðandi heitir sóknarlega. Jón Axel Guðmundsson bar uppi sóknarleik heimamann í fyrri hálfleiknum og hafði hann gert 21 stig þegar flautað var til hálfleiks. Charles García var einnig að spila vel og skoraði hann 11 stig í hálfleiknum og tók 10 fráköst. Hjá ÍR-ingum var það Vilhjálmur Theódór Jónsson sem var atkvæðamestur með 15 stig.

Í upphafi síðari hálfleiksins voru liðin bæði í bullandi vandræðum með að koma boltanum ofan í körfu og fór hvert skotið á fætur öðru forgörðum. Þegar leið á þriðja leikhlutann fóru gestirnir að sækja í sig veðrið og byrjuðu að spila mun skynsamari sóknarleik. Sem hafði það í för með sér að Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR, kom liðinu yfir 57-56, þegar stutt var eftir af þriðja leikhlutanum. Grindvíkingar náðu aðeins að svara fyrir sig og leiddi með einu stigi fyrir lokaleikhlutann, 63-62.

ÍR-ingar byrjuðu fjórða leikhlutann betur og komust strax yfir en þá kviknaði á Grindvíkingum og komst liðið mjög snögglega í 77-70. ÍR-ingar neituðu að gefast upp og fór þar fremstur í flokki Jonathan Mitchell í liði Breiðhyltinga. Undir lok leiksins munaði litlu á liðunum og fengu ÍR-ingar heldur betur tækifæri til að jafna og vinna þennan leik en skotin vildu ekki niður. Grindvíkingar voru sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum 86-82. Frábær sigur hjá þeim en liðið er nú komið með 12 stig. 

Grindavík-ÍR 86-82 (25-18, 21-19, 17-25, 23-20)

Grindavík: Jón Axel Guðmundsson 28/8 fráköst, Charles Wayne Garcia Jr. 27/15 fráköst/4 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 13/17 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10, Daníel Guðni Guðmundsson 3, Ingvi Þór Guðmundsson 3, Þorsteinn Finnbogason 2.

ÍR: Jonathan Mitchell 31/11 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 17, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 14/6 fráköst, Sveinbjörn Claessen 9/5 stoðsendingar, Kristján Pétur Andrésson 6, Trausti Eiríksson 3/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 2.

Jóhann Þór: Ætlum okkur í úrslitakeppnina
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkurliðsins,Vísir/Ernir
„Það var algjört lykilatriði fyrir okkur að vinna þennan leik í kvöld,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga, eftir leikinn.

„Undirbúningurinn gekk mjög vel í vikunni og við ætluðum okkur að vinna í kvöld,“ segir Jóhann sem er nokkuð ánægður með Charles García. „Hann er að koma nokkuð vel inn í þetta, en það vantar enn aðeins upp á leikformið.“

Hann segir að liðið ætli sér í úrslitakeppnina en það sé stutt í báðar áttir. Jóhann var ekki ánægður með allt í leik heimamanna.

„Við áttum að gera út um þennan leik undir lokin og við verðum að vera miklu einbeittari. En þetta er að koma hjá okkur og mikil framför á leik liðsins frá því á Egilsstöðum í síðustu umferð.“

Borce: Við förum ekkert að grenja
„Við komum hingað til að vinna leikinn, það er á hreinu,“ segir Borce Ilievski, þjálfari ÍR, eftir leikinn.

„Liðið byrjaði ekki nægilega vel og ég var ekki sáttur með það. Við höfum verið að undirbúa okkur alla vikuna fyrir akkúrat þennan leik og þegar við fáum svona mörg stig á okkur í fyrsta leikhlutanum, þá getur þetta farið illa.“

Hann segir að fyrri hálfleikurinn hafi ekki verið góður, en sá síðari mun betri.

„Undir lokin fengum við síðan góð tækifæri til að gera út um þetta en það gekk bara ekki, það vantaði smá heppni. Svona er bara körfubolti, við förum ekkert að gráta og höldum bara áfram.“

Borce segir að liðið ætli alls ekki að gefast upp á úrslitakeppninni og leikmenn liðsins haldi bara áfram.

García: Það er allt nokkrum sekúndum í burtu„Þetta er mjög einfaldur bær og það er frábært fyrir mig,“ segir Charles García, nýr leikmaður Grindvíking, sem er 208 sentímetrar á hæð og lék vel í kvöld.

„Allt sem maður þarf er bara nokkrum sekúndum í burtu frá manni hér, þetta er ótrúlegt. Veðrið mætti vera betra, ég er ekki vanur svona snjó.“

García segir að gæði körfuboltans á Íslandi séu góð.

„Tempóið er mikið og maður getur aldrei slakað á í eina sekúndu. Núna verð ég bara að reyna passa betur inn í liðið og reyna að aðstoða það eins mikið og ég get. Það eru margir virkilega góðir leikmenn í þessu liði, og menn með stór hlutverk.“+

García er virkilega ánægður með liðið og liðsfélaga sína hjá Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×