Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - ÍBV 25-18 | Valur skellti nýkrýndum bikarmeisturum

Dagur Sveinn Dagbjartsson á Hlíðarenda skrifar
Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson. vísir/pjetur
Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Olís-deild karla í handbolta með 7 marka sigri á Íslands- og bikarmeisturum ÍBV, 25-18.

Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Vodafone-höllinni í kvöld og tók myndirnar sem fylgja umfjölluninni.

Það var ljóst frá upphafi að Valsmenn ætluðu að sýna og sanna af hverju þeir eru í efsta sæti deildarinnar. Leikurinn var jafn fyrstu 15-20 mínúturnar en Valsmenn voru þá ávallt skrefi framar.

Þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik tóku heimamenn að auka forskot sitt, sex núll vörn Valsmanna með þá Kára Kristján og Orra Frey fyrir miðju fór að smella og fyrir aftan þá var Stephan Nielsen að verja vel.

Eyjamenn léku án Magnúsar Stefánsson sem lenti í árekstri fyrr í dag og hlaut við höfuðhögg. Í upphitun gerði höfuðverkur vart við sig og Eyjamenn tóku enga áhættu, Magnús kom ekkert við sögu í leiknum. Valsmenn voru einnig án mikilvægra leikmanna, þeirra Guðmundar Hólmars Helgasonar og Elvars Friðrikssonar.

Valsmenn leiddu í hálfleik, 14-11.

Valsmenn héldu forskoti sínu í síðari hálfleik. Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu en illa gekk að finna leið framhjá Nielsen í markinu. Eyjamenn náðu auk þess sárasjaldan að koma sér í hraðaupphlaupsstöðu, eitthvað sem reynst hefur liðinu drjúgt oft á tíðum í vetur. Fyrir vikið fengu Eyjamenn lítið út úr þeim Grétari Þór Eyþórssyni og Theódóri Sigurbjörnssyni.

Valsmenn voru með leikinn í sínum höndum. Undirritaður hafði á tilfinningunni að heimamenn hefðu getað aukið forskot sitt enn meira en þeir gerðu það sem þurfti og fóru að lokum með sjö marka sigur af hólmi, 25.-18.

Valsmenn eru enn taplausir á þessu ári, hafa unnið alla fimm leiki sína og tróna á toppi deildarinnar. Fín holning virðist vera á liðinu þar sem margir leikmenn virðast geta tekið á sig ábyrgða stöður.

Vörnin var góð og náði oft á tíðum að þvinga Eyjamenn í erfið skot. Fyrir aftan hana var Stephen Nielsen vel vakandi og átti afbragðs leik. Hann varði 24 skot og var af öðrum ólöstuðum maður leiksins.

Óskar Bjarni: Höfum neyðst til að búa til breidd

"Ég er fyrst og fremst ánægðastur með að sigra. Við lékum án tveggja manna sem hafa leikið stórt hlutverk hjá okkur. Þeir eru báðir góðir sóknarmenn og góðir varnarmenn og það er gríðarlega sterkt að vinna án þeirra. Mjög gott upp á breiddina. Stephan var frábær í markinu," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, aðspurður um það hvað hann væri ánægðastur með.

"Sóknin var að spila vel einnig og við erum að gera fáa tæknifeila. Við vorum kannski ekki að sækja nóg á þá í seinni hálfleik. Ég vil óska öllum Eyjamönnum til hamingju með bikarinn. Það er alltaf erfitt að koma í leik eftir bikar en þetta var okkar leikur í dag," bætti Óskar við.

"Við erum mjög ánægðir. Þegar það vantar menn, þá þvingast maður kannski til að búa til breidd og það gengur vel. Við erum að fara á mjög erfiðan útileik á sunnudaginn. Mér finnst Akureyri vera á uppleið og er með mjög gott lið," sagði Óskar að lokum en Valur mætir Akureyri í næstu umferð.

Stephan Nielsen: Markmaður er aldrei betri en vörnin sín

Markvörður Stephan Nielsen var maður leiksins. Hann var að vonum kátur í leikslok og hrósaði varnarmönnum sínum fyrir góðan leik.

"Við byrjuðum ekki nógu vel, vorum lengi í gang. En við fórum í gang í seinni hálfleik, sérstaklega vörnin. Það er mjög erfitt að spila á móti okkur þegar við spilum góða vörn. Markmaður er aldrei betri en vörnin sín og öfugt. Mér fannst það koma vel í ljós hjá okkur. Vörnin var að vinna góða vinnu og gerði mína vinnu mjög einfalda," sagði Nielsen.

Valur tapaði í erfiðum leik gegn FH í undanúrslitum bikarsins, í leik sem flestir bjuggust við að Valur myndi vinna. Nielsen var ánægður með að sitt lið hafi náð að rífa sig upp eftir þann leik.

"Mér finnst vera góður karakter í liðinu. Vonandi heldur það áfram. Sterkt að koma tilbaka og vinna ÍBV. Það er gaman að sjá að við getum þetta. Vonandi heldur þetta áfram. Það er langur vegur framundan. Það eru sex leikir eftir í deildinni," sagði Nielsen að lokum.

Gunnar Magnússon: Náðum ekki að refsa þeim með hraðaupphlaupum

"Ég var ánægður með fyrstu 20 mínúturnar en það sem okkur vantaði var hraðaupphlaup. Ég var ánægður með vörnina og Kolli var að verja vel í lokinn. En við náðum ekki að refsa þeim með hraðaupphlaupum og auðveldum mörkum. Og svo verð ég að gefa Nielsen í markinu hrós, hann varði rosalega vel. Tók víti og dauðafæri og þá var þetta erfitt fyrir okkur," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, eftir leikinn.

Gunnar var ekki á því að bikarúrslitaleikurinn hafi setið í sínum mönnum. "Mér fannst strákarnir spila vel. Við vorum að spila okkur í færi og náðum að láta flest ganga upp sem við lögðum upp með. Við þurfum bara að klára þessi færi. Við tókum sénsa undir lokinn og misstum þá þ.a.l. aðeins lengra fram úr okkur."

Magnús Stefánsson, leikmaður ÍBV, lenti í árekstri í hádeginu í dag og lék ekkert með Eyjamönnum. "Hann fékk höfuðhögg og fann fyrir því í upphitun. Við tókum enga áhættu með það," sagði Gunnar.

Eyjamenn hafa aðeins unnið einn leik af fjórum í deildinni á þessu ári. Gunnar sagði að nú yrði Eyjaliðið að einbeita sér að deildinni, bikarævintýrið væri búið. "Nú er bara ný áskorun fyrir okkur. Við ætlum að bæta okkur jafnt og þétt í mars og vera í topp standi í apríl," sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×