Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Haukar 22-29 | Haukar sópuðu Valsmönnum úr leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukar fagna í leikslok.
Haukar fagna í leikslok. vísir/valli
Haukar hreinlega völtuðu yfir Valsmenn, 29-22, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olís-deild karla og sópuðu því deildarmeisturunum úr leik 3-0. Lið Vals náði sér aldrei á strik í einvíginu.

Giedrius Morkunas var ótrúlegur í markinu hjá Haukum og varði 21 skot. Árni Steinn Steinþórsson og Janus Daði Smárason gerðu báðir fimm mörk fyrir Hauka.

Myndir Valgarðs Gíslasonar úr leiknum má sjá hér að ofan.

Valsmenn byrjuðu leikinn vel ákveðnir og keyrðu hraðan upp í leiknum alveg frá fyrstu sekúndu. Heimamenn komust í 3-1 en Haukar voru ekki lengi að jafna metin í 5-5. Hraði leiksins á fyrstu tíu mínútum var ógnvænlegur og menn gerðu eðlilega nokkur mistök á þeim kafla.

Haukar náðu fljótlega fínum tökum á sínum leik og komust yfir 8-5. Morkunas var frábær í markinu og með flotta vörn fyrir framan sig. Lítið gekk upp hjá Valsmönnum sóknarlega og voru leikmenn liðsins að skjóta illa og voru þeir einfaldlega hræddir við markmanninn hjá Haukum.

Haukar juku við forskot sitt og var staðan í hálfleik 14-6 fyrir gestina. Valsmenn skoruðu ekki mark síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiksins og Haukar með pálmann í höndunum og á leiðinni í úrslit. Það þurfti margt að breytast hjá Valsmönnum í síðari hálfleik og heimamenn þurftu kraftaverk.

Haukar  héldu áfram uppteknum hættu í upphafi síðari hálfleiks og komust Valsmenn ekki nær. Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 19-10 fyrir Hafnfirðinga og leikurinn svo gott sem búinn. Það er skemmst frá því að segja að Valsmenn sáu aldrei til sólar í þessum leik og Haukar sigldu þessum sigri þægilega í höfn. Haukar voru einfaldlega betri en Valsmenn í þessu einvígi og höfðu undirbúið sig einstaklega vel. Valsmenn áttu aldrei nein svör, hvorki varnarlega né sóknarlega.

Haukar voru mest níu mörkum yfir í leiknum, annan leikinn í röð sem Valsmenn tapa illa gegn Haukum á heimavelli. Liðið fór hreinlega á taugum í einvíginu eins og það leggur sig. Leiknum lauk með öruggum sigri Hauka, 29-22, og liðið komið í úrslit. Þar mætir liðið annaðhvort ÍR eða Aftureldingu.

Patrekur: Strákarnir fá alltaf töluvert heimanám
„Þetta var ótrúlegt einvígi, en við spiluðum bara vel og áttum þetta skilið,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

„Þetta er frábært Valslið en við spiluðum bara einstaklega vel í fyrsta leik og það lagði grunninn að þessum árangri. Ég er mjög ánægður með okkar leik í dag, við héldum alltaf ró og höfðum trú á verkefninu.“

Patrekur segir að liðið hafi undirbúið sig virkilega vel fyrir hvern leik.

„Strákarnir fá alltaf töluvert heimanám með sér heim og ég sendi þeim reglulega upplýsingar um það hvernig mótherjinn spilar. Það er bara hluti af minni vinnu. Það skiptir einnig öllu máli að leikmennirnir séu meðtækilegir og vilji vinna.“

Patrekur segist ekki hafa neinn óska mótherja í úrslitaeinvíginu.

„Nei það skiptir engu máli. Afturelding og ÍR eru svipuð lið. Við verðum bara að vera klárir.“

Óskar: Þetta er bara skandall fyrir deildarmeistara
„Það er ekkert hægt að vera neitt nema mjög svekktur eftir svona einvígi,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir tapið í kvöld.

„Að tapa þrjú núll er bara algjör skandall fyrir deildarmeistara. Haukarnir voru bara mjög góðir, spiluðu fanta góða vörn og hann var frábær í markinu.“

Óskar segir að Haukar hafi slegið öll vopnin úr höndum þeirra í fyrri hálfleik.

„Við fundum enginn göt á vörn þeirra. Við vorum bara lélegir í dag og Haukarnir betri. Það er leiðinlegt að þetta sé búið því við erum alls ekki 3-0 verri en Haukar.“

Hann segist aftur á móti vera stoltur af strákunum og þá sérstaklega með deildarmeistaratitilinn. 

vísir/valli
vísir/valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×