Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - FH 2-2 | FH heldur toppsætinu

Ingvi Þór Sæmundsson á Stjörnuvelli skrifar
Þorri Geir Rúnarsson og Pétur Viðarsson í baráttunni í Garðabænum í dag.
Þorri Geir Rúnarsson og Pétur Viðarsson í baráttunni í Garðabænum í dag. vísir/daníel
Stjarnan og FH skildu jöfn í uppgjöri efstu liða Pepsi-deildar karla. Leikurinn var góður, þótt hann hafi kannski ekki náð þeim hæðum sem leikur þeirra á Samsung-vellinum í fyrra náði.

Áhorfendur fengu þó sitthvað fyrir peninginn í dag; fjögur mörk, rautt spjald og lengst af góðan fótbolta.

Leikurinn fór þó rólega af stað og hvorugt liðið virtist tilbúið til að taka mikla áhættu.

FH-ingar voru þó ívið sterkari og voru ógnandi í föstum leikatriðum. Atli Viðar Björnsson fékk einnig ágætis færi eftir skyndisókn sem Hafnfirðingar hefðu þó getað útfært betur en þeir gerðu.

Atla tókst hins vegar betur upp á 23. mínútu þegar hann kom FH yfir með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu Ólafs Páls Snorrasonar frá hægri. Varnarmaður Stjörnunnar fleytti boltanum áfram til Atla sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði sitt fimmta mark í deildinni í sumar.

Stjörnumenn gekk illa að finna glufur á sterkri vörn FH í fyrri hálfleik. Veigar Páll Gunnarsson dró sig oft niður á völlinn, en það vantaði að samherjar hans tækju hlaup í þau svæði sem hann opnaði fyrir þá.

Það var helst Arnar Már Björgvinsson sem ógnaði FH-vörninni og hann jafnaði leikinn á 34. mínútu.

Hann fékk þá boltann úti á hægri kantinum, lék áfram og inn á völlinn og þrumaði boltanum með vinstri fæti í fjærhornið. Frábært mark hjá Arnari sem hefur verið mjög heitur í undanförnum leikjum.

Varnarleikurinn hjá Böðvari Böðvarssyni, vinstri bakverði FH, var hins vegar ekki til útflutnings, en hann gaf Arnari nægan tíma til að hleypa skotinu af.

Eftir markið datt leikurinn niður, án þess þó að vera nokkurn tímann leiðinlegur eða illa spilaður.

Enski miðjumaðurinn Sam Hewson komst nálægt því að skora þegar Ingvar Jónsson varði í tvígang frá honum í sömu sókninni á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Garðbæingar komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og settu meiri pressu á FH-liðið en þeir höfðu gert í fyrri hálfleik.

Róbert Örn Óskarsson, markvörður FH, þurfti að hafa sig allan við til að verja gott skot Pablos Punyed beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Ólafur Karl Finsen vaknaði einnig til lífsins og fór að láta að sér kveða.

Hafnfirðingar unnu sig þó fljótlega inn í leikinn og Ólafur Páll hefði átt að gera betur þegar hann skaut boltanum í hliðarnetið í fínu færi á fjærstönginni.

Um miðjan seinni hálfleik varð svo fjandinn laus.

Fyrst komst Atli Viðar óvænt einn í gegnum vörn Stjörnunnar, en Ingvar var fljótur út á móti markaskoraranum og bjargaði sínum mönnum frá því að lenda undir.

Hann kom hins vegar engum vörnum við þegar FH-ingar komust yfir á 67. mínútu með sjálfsmarki Martins Rauschenberg.

Ólafur Páll slapp þá upp hægri kantinn eftir gott samspil, sendi fyrir og boltinn fór af Dananum og í netið.

En áður en Stjörnumenn gátu tekið miðju sýndi Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, Pétri Viðarssyni, miðverði FH, sitt annað gula spjald fyrir brot sem átti sér stað hátt í mínútu á undan markinu.

Í kjölfarið tók Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, Atla Viðar út af og setti Sean Reynolds inn í stöðu miðvarðar við hlið Kassims Doumbia.

Og FH-ingar héldu sjó þar til á 82. mínútu þegar Veigar Páll kórónaði góðan leik sinn með því að skora af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arnars Más sem hafði hirt boltann af kærulausum Emil Pálssyni í aðdraganda marksins.

Einhver áhöld voru um hvort boltinn hefði farið yfir marklínuna, en aðstoðardómarinn virtist viss í sinni sök og dæmdi mark.

Hvorugu liðinu tókst hins vegar að skora sigurmarkið og niðurstaðan því 2-2 jafntefli í þessum toppslag Pepsi-deildarinnar.

FH-ingar eru enn tveimur stigum á undan Stjörnunni í efsta sæti deildarinnar nú þegar fyrri umferðin er að renna sitt skeið.

Úr leiknum í dag.vísir/daníel
Rúnar: Áttum bara að vinna, punktur

„Þetta var náttúrlega brot í fyrra markinu - það var fúlt að fá það á sig,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn um markið sem Atli Viðar Björnsson skoraði fyrir FH í fyrri hálfleik.

„Það var samt karakter að jafna þetta. Ég sé ekki hvað gerist í seinna markinu sem FH skorar en ég er ánægður emð drengina. Mér fannst við bara eiga að vinna þennan leik,“ sagði Rúnar sem fannst sínir menn betri.

„Við vorum betri í fyrri hálfleik og ég tala nú ekki um þann síðari. Við eigum bara að vinna þetta lið á heimavelli. Mér fannst við betri og þá eigum við að vinna, punktur. Við settum á þá og fengum eitt mark en lengra komumst við ekki, því miður.“

Honum fannst boltinn vera langt inni í öðru markinu sem Veigar Páll Gunnarssonar skoraði, en um annað mark FH hafði hann þetta að segja:

„Þetta er brot hinum megin og það á að stöðva leikinn. Veigar er að komast einn í gegn en er hindraður. Veigar er dauðafrír og Arnar hefði alveg getað gefið á hann. Þetta er bara pjúra rautt spjald,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson.

Heimir Guðjónsson íbygginn á svip í Garðabænum.vísir/daníel
Heimir: Treysti Garðari og hans mönnum

„Það eru vonbrigði að hafa komist í 2-1 en misst þetta niður,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir jafnteflið í kvöld.

„Við byrjuðum seinni hálfleik ekkert sérstaklega vel, en eftir tíu mínútur vorum við alltaf líklegir og skoruðum mark.“

„En svo er Pétur rekinn af velli og þetta verður erfitt eftir það. Mér fannst Stjarnan samt ekkert vera að opna okkur. Ég sá samt ekki hvað gerðist þegar Pétur fékk rautt né hvort boltinn var ekki - ekki þaðan sem ég stóð. Ég treysti bara Garðari og hans mönnum.“

FH er á toppi deildarinnar með 25 stig þegar mótið er hálfnað og Stjarnan í öðru sæti með 23 stig. Er Heimir ánægður með árangurinn til þessa?

„Þetta er fínt en ég væri til í að vera með 27 stig í staðinn fyrir 25,“ sagði Heimir Guðjónsson.

Veigar Páll með boltann í dag.vísir/daníel
Veigar: Það má ekki rífa í peysu

„Ég er svekktur með að vinna ekki, en við erum að spila kannski á móti besta liði landsins,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson, framherji Stjörnunnar, eftir leikinn.

„Jafntefli er kannski bara ágætt. Aðalatriðið var að missa FH ekki lengra frá okkur,“ sagði Veigar sem skoraði annað mark Garðbæinga í dag og tryggði heimamönnum jafntefli.

Hann var ánægður með spilamennsku Stjörnuliðsins í leiknum.

„Ég var aldrei smeykur (eftir að FH komst yfir). Við spiluðum fínan bolta og sköpuðum okkur reglulega færi. Það hlaut því að detta inn eitt mark,“ sagði Veigar.

Brotið var á honum í aðdraganda annars marks FH en fyrir það fékk Pétur Viðarsson rautt spjald. Var það réttur dómur að hans mati?

„Mér finnst það. Það má ekki rífa í peysu síðast þegar ég las reglurnar,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×