Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Afturelding - Selfoss 25-32 | Nýliðarnir byrja af krafti

Kristinn Páll Teitsson í N1-höllinni skrifar
Guðjón Ágústsson skoraði sex mörk í kvöld.
Guðjón Ágústsson skoraði sex mörk í kvöld. vísir/anton
Selfyssingar byrjuðu Olís-deildina af krafti og sóttu sigur í Mosfellsbæinn í kvöld 32-25. Eftir að hafa lent undir snemma leiks náðu Selfyssingar með Grétar Ara Guðjónsson í banastuði í markinu að snúa leiknum sér í hag.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í N1-höllinni í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Var þetta fyrsti leikur Selfyssinga í deild þeirra bestu í fimm ár en verkefni kvöldsins var strembið á útivelli gegn silfurliði síðasta árs.

Afturelding byrjaði leikinn betur, vörn liðsins hélt þokkalega og sóknarleikur liðsins gekk vel. Selfyssingar virtust vera ragir við að fara út og mæta þeim og voru Mosfellingar yfirleitt fyrstir til að ná frákastinu.

Mosfellingar náðu 8-5 forskoti um miðbik fyrri hálfleiks en þá tók Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, leikhlé og endurskipulagði leikskipulag sinna manna.

Við það hrökk Grétar Ari í markinu í gang og upp úr því fengu Selfyssingar auðveldari mörk.

Tókst þeim að svara með 10-4 kafla en Mosfellingum tókst að minnka muninn í tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks 13-15.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þeir luku fyrri hálfleiknum og juku smátt og smátt forskotið.

Mosfellingar misstu mann af velli strax á upphafsmínútunum og gestirnir náðu að nýta sér það til fullnustu.

Náðu Selfyssingar sjö marka forskoti þegar sex mínútur voru búnar af seinni hálfleik en innkoma Sölva Ólafssonar í mark Aftureldingar um það leytið reyndist liðinu vítamínssprauta.

Náðu Mosfellingar að minnka muninn niður í þrjú mörk á ný en Selfyssingar svöruðu um hæl og leiddu aftur með sjö mörkum þegar seinni hálfleikur var hálfnaður 25-18.

Selfyssingar virtust fyllast af sjálfstrausti við að ná góðu forskoti á ný og hleyptu þeir Aftureldingu aldrei aftur inn í leikinn.

Náðu gestirnir frá Selfossi um tíma átta marka forskoti en leiknum lauk með sjö marka sigri Selfyssinga.

Elvar Örn Jónsson var atkvæðamestur í liði gestanna með níu mörk en í liði heimamanna voru það Jón Heiðar Gunnarsson, Árni Bragi Eyjólfsson og Mikk Pinnonen sem voru markahæstir með fimm mörk hver.

Grétar Ari átti stórleik í marki Selfyssinga með 20 varin skot, alls 44% markvörslu en hinumegin var Sölvi öflugur með 9 varin skot af 20, alls 45% markvarsla.

Guðni: Erum bara sveitamenn en látum finna fyrir okkur„Það er ekki hægt að segja annað. Það er ekki bara að þeir voru lélegir í kvöld, við vorum bara djöfulli flottir,“ sagði Guðni Ingvarsson, himinlifandi aðspurður hvort þetta hefði verið draumabyrjunin á Olísdeildinni í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Selfoss í efstu deild í handbolta í fimm ár en þeir gáfu ekki tommu eftir í leiknum í kvöld.

„Við erum bara sveitamenn og við ætlum allaveganna að láta finna fyrir okkur. Það skilar sér oft í svona leikjum og mér fannst við einfaldlega ferskari í löppunum,“ sagði Guðni og bætti við:

„Um leið og skjálftinn var farinn úr okkur og menn fóru með kassann út þá varð þetta mun betra og mun skemmtilegra. Það var mikil stemming í hópnum og við höfðum allir trú á þessu.“

Góðar rispur undir lok fyrri hálfleiksins og í byrjun seinni hálfleiksins gerðu í raun út um leikinn í kvöld.

„Þegar við fengum þessi auðveldu mörk undir lok fyrri hálfleiks fá þeir smá sjokk. Svo byrjum við seinni hálfleikinn vel og náum að halda andliti þegar þeir ná að saxa á okkur. Fyrir vikið voru síðustu tíu mínúturnar aðeins formsatriði,“ sagði Grétar að lokum.

Einar Andri: Þegar menn spila illa er stutt í vitleysuna
Lærisveinar Einars Andra fengu óvæntan skell í fyrstu umferð.Vísir/Eyþór
„Strákarnir þurfa að svara fyrir það en við náðum að byrja leikinn af krafti áður en við erum slegnir aftur niður,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, aðspurður hvort vanmat hefði komið upp fyrir fyrsta leik vetursins gegn nýliðum í deildinni.

„Selfyssingar voru hrikalega öflugir í kvöld, mun betri stemming hjá þeim og þegar skjálftinn fór úr þeim fengu þeir sjálfstraust og gengu á lagið. Það kann ekki á gott þegar lykilleikmenn okkar ná sér ekki á strik.“

Afturelding byrjaði leikinn betur en eftir leikhlé Selfyssinga um miðbik fyrri hálfleiks snarversnaði sóknar- og varnarleikur liðsins.

„Við fórum út úr öllu því sem við erum góðir í og misstum öll tök á leiknum. Þegar menn eru ekki að spila vel þá er styttra í þessa vitleysu og því fór sem fór.“

Einar Andri átti ekki í vandræðum með að telja upp leikmenn sem ollu honum vonbrigðum í kvöld.

„Ég er ósáttur með Mikk, Elvar, Guðna, Birki og Árna sóknarlega og allt liðið varnarlega. Sá eini sem ég get hrósað eftir leikinn er Sölvi sem kom vel inn í markið en lykilleikmenn liðsins hljóta að vera ósáttir í kvöld. Við töpuðum trekk í trekk einn-á-einn og þeir fengu auðveld skot sem gerði markvörðunum erfitt fyrir,“ sagði Einar sem var stuttmæltur aðspurður hvort hann tæki eitthvað jákvætt úr leiknum.

„Nei, ekki í fljótu bragði,“ sagði Einar að lokum.

Stefán: Strákarnir eru allir æstir að sanna sig í Olís-deildinni„Manni þorði ekki að dreyma um úrslit jafn góð og þessi ef ég á að vera hreinskilinn. Um leið og við komumst yfir var ekkert aftur snúið,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfyssinga, glaðbeittur eftir sjö marka sigur á Aftureldingu í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Selfyssinga í efstu deild í fimm ár en liðið spilaði einfaldlega frábærlega og verðskuldaði sigurinn.

„Ég var viss um það að við myndum vinna leikinn í kvöld eftir vikuna sem við höfum átt og ég fann það rétt fyrir leik að menn voru klárir. Ég hefði hinsvegar ekki trúað því að sigurinn yrði jafn stór.“

Fyrir utan stuttan kafla í seinni hálfleik var forskot gestanna aldrei í hættu í Mosfellsbænum í kvöld.

„Við fórum að stytta sóknirnar okkar full mikið og þeir fengu auðveld mörk upp úr því. Um leið og við náðum að stilla í sex á sex þá vorum við með þá. Það er jákvætt fyrir strákanna allt erfiðið í sumar skila sér og að sjá að þeir eiga fullt erindi í þessa deild.“

Grétar Ari Guðjónsson fór á kostum í marki Selfyssinga í kvöld en Stefán var afar sáttur með frumraun hans í treyju Selfyssinga.

„Hann tók smá tíma að hrökkva í gang en þá fór hann að verja meira og minna allt sem kom á markið. Hann er gríðarlega efnilegur og góður markmaður en hann á eftir að bæta sig mikið með því að spila hjá okkur í vetur,“ sagði Stefán sagði ekki aðeins Grétar vera ákveðna í að stimpla sig inn í Olís-deildina.

„Hann er æstur í að sanna sig og kom til okkar til þess að fá tækifæri. Það er eins með hann og aðra í liðinu að við erum æstir í að sanna hvað í okkur býr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×