Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Þór - KR 2-0 | Sjáðu mörkin sem felldu KR-inga

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli skrifar
Vísir/Pjetur
Þór kom sér úr botnsæti Pepsi-deildar karla með því að leggja Íslandsmeistara KR að velli á heimavelli, 2-0.

Mörk leiksins voru bæði glæsileg en Ármann Pétur Ævarsson kom Þór yfir með þrumufleyg undir lok fyrri hálfleiks.

Shawn Nicklaw jók svo muninn með góðu skoti eftir frábæran samleik við Chukwudi Chijindu sem lék sinn fyrsta leik fyrir Þór í sumar eftir að hafa verið frá vegna meiðsla.

Kjartan Henry Finnbogason fékk svo tækifæri til að minnka muninn fyrir KR úr vítaspyrnu en skaut hátt yfir markið.

Þetta var fjórða tap KR í sumar en liðið er í þriðja sæti með nítján stig. Þór er nú í tíunda sæti með átta stig.

Leikur fór kröftulega af stað, bæði lið reyndu að sækja og pressuðu hátt. Bæði lið fengu sinn skerf af hálf færum og komust í álitlegar sóknir. Það var þó ekki fyrr en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Ármann Pétur kom heimamönnum yfir með frábæru skoti í slánna og inn langt utan af velli. Frábært mark og mögulega verðskulduð forysta heimamanna.

Það var Nicklaw sem skoraði annað mark Þórs eftir að hafa spilað sig í gegnum vörn KR ásamt Jóhanni Helga og Chukwudi Chijindu sem áttu góðan undirbúning áður en Nicklaw tók rispu inn á teig og skoraði með öruggu skoti.

Mikill hiti færðist í leikinn þegar líða fór á og lenti leikmönnum beggja liða saman rétt eftir seinna mark Þórs. Í uppbótartíma fengu gestirnir í KR vítaspyrnu þegar Orri Sigurjónsson felldi Baldur Sigurðsson en Kjartani Henry brást bogalistin og hann þrumaði boltanum langt yfir markið.

Þar við sat og Þór vann dýrmætan sigur og skríður upp úr fallsæti en róður KR í titilbaráttunni herðist.

Sveinn Elías Jónsson: Með spyrnu í báðum fótum

„Mér fannst við vera þéttir eins og við lögðum upp með. Við ætluðum að vera þéttir til baka, gefa fá færi á okkur og mér fannst við gera það. Einu færi þeirra fannst mér vera fyrir utan teig fyrir utan einhverja örfáa bolta sem þeir reyna að húkka inn fyrir okkur á síðustu mínútunum," sagði Sveinn Elías, fyrirliði Þórs, sem var hæst ánægður með skipulagið í varnarleik sinna manna.

Þór sat fyrir leik í botnsæti deildarinnar og hafa verið fremur lánlausir það sem af er liðið móts en unnu dýrmætan sigur í dag og telur Sveinn að Þórsarar hafi notað það sér til hvatningar í dag.

„Þetta eru þrjú stig. Okkur hefur gengið illa að safna stigum í vetur og þau eru því afar mikilvæg. Við vorum komnir á botninn og menn komast ekki mikið neðar. Við vorum því með spyrnu í báðum fótum og náðum klárlega að spyrna okkur frá þessu aðeins núna," sagði Sveinn.

Chukwudi „Chuck" Chijindu, spilaði sínar fyrstu mínútur á leiktíðinni í dag en hann er búinn að vera meiddur í sumar. Hann lét vel af sér kveða og lagði meðal annars upp annað mark Þórs í dag. Sveinn er ánægður með að Chuck sé kominn aftur og segir að framlag hans til varnarleiksins gæti hafa reynst afar mikilvægt í dag.

„Menn vanmeta mikið varnarleikinn, mér finnst hann mjög mikilvægur í varnarleiknum því við höldum boltanum betur frammi þegar hann er með og mér finnst flest mörkin sem við fáum á okkur vera þegar við gefum opnanir á okkur þegar við töpum honum ofarlega," sagði Sveinn.

Páll Viðar Gíslason: Við gefumst ekki upp!

„Ég er brattari núna en eftir undanfarna heimaleiki. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þessi þrjú stig og þau eru afar kærkomin," sagði Páll Viðar, þjálfari Þórs eftir leikinn í dag.

Varnarleikur Þórs var öflugri í dag en hann hefur oft verið og pressuðu Þórsararnir gestina mikið í leiknum. Páll hrósaði framlagi sinna manna og var ánægður með þá auka vinnu sem þeir lögðu á sig.

„Við spiluðum pressuna betur og lokuðum fleiri svæðum en áður. Það virkaði fínt, menn voru að taka smá auka vinnu á sig og það skilar sér í þessum góða sigri þegar menn eru þéttir og gefa fá færi á sér. Kannski ekki skemmtilegasti leikur í heimi en eins og flestir vita þá þurfum við meira á þessum stigum að halda en flestir," sagði Páll.

Þór mun reyna að styrkja sig í glugganum samkvæmt Páli og eru nú þegar með leikmann á reynslu hjá sér.

„Við erum með ungverskan varnarmann á reynslu og hann lítur vel út. Vonandi að hann standi undir væntingum og við munum semja við hann. Við verðum svo bara að bíða og sjá hvort það verði eitthvað meira," sagði Páll.

„Ef einhver hefur haldið að við værum búnir að gefast upp þá höfum við afsannað það hér í dag," bætti Páll við.

Ármann Pétur: Ég ætlaði að leggja hann fyrir mig og skjóta

„Þetta var gífurlega mikilvægt. Maður fann það bara tveimur dögum fyrir leik að þetta var að smella rétt saman og við vorum að rúlla þessu vel í gegn, við vorum að finna réttan kraft og áræðni þá vissi maður að þetta myndi koma," sagði Ármann Pétur, leikmaður Þórs eftir leikinn.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks skoraði Ármann eitt fallegasta mark ársins þegar hann negldi boltanum í slánna og inn langt fyrir utan teig. Var þetta það sem hann ætlaði sér?

„Já, ég verð að viðurkenna það að ég ætlaði að leggja hann fyrir mig og fara beint í skot. Þetta var afar ánægjulegt," sagði Ármann.

Þór vann dýrmætan sigur í leik sem mögulega margir hafa ekki séð fyrir sér að þeir myndu vinna. Hversu þýðingarmikill var þessi sigur fyrir Þórsarana?

„Þetta er bara einn leikur og gefur bara jafn mörg stig og allir hinir. Við verðum bara að rúlla þessu í gegn aftur, halda fólus og finna sama baráttuandan," sagði Ármann.

Rúnar Kristinsson: Þeir brutu niður okkar leik

„Það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem fór úrskeiðis. Þeir vörðust vel Þórsararnir og gerðu okkur erfitt fyrir, við sköpuðum lítið af færum en þeir leyfðu okkur að vera meira með boltann. Það gerði okkur erfitt fyrir þegar þeir skora rétt fyrir hálfleikinn - eitt fallegasta mark sumarsins, það er í raun eina skotið þeirra í fyrri hálfleik og í raun eina skiptið þá sem boltinn stefndi að netinu hjá okkur. Þórsararnir spiluðu vel, pressuðu okkur og brutu okkar leik niður," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR eftir leikinn.

Hans mönnum gekk illa að ná þeim tökum á leiknum sem þeir hafa líklega kosið og í kjölfar seinna mark Þórs mátti greina mikinn pirring á meðal leikmanna sem endaði í að leikmönnum beggja liða lenti saman. Telur Rúnar að sínir menn hafi misst hausinn?

„Ég held að menn hafi orðið örlítið pirraðir. Mér fannst frá fyrstu mínútum leiksins að þeir hafi fengið svolítið að toga og ýta mönnum án þess að dómarinn fengi að sjá það. Þetta spilast stundum svoleiðis og ég held að menn hafi bara orðið smá pirraðir undir restina," sagði Rúnar.

„Við erum ekki að huga að því. Við erum með fínan og breiðan hóp og hugum ekki að því að breyta honum," svaraði Rúnar, þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að styrkja hópinn í komandi félagsskiptaglugga.

Með tapinu veiktist staða KR-inga í titilbaráttunni en Rúnar er ekki búinn að leggja árar í bát og vonast eftir því að sínir menn mæti sterkari til leiks í næstju leikjum.

„Við þurfum að fókusera á sjálfa okkur. Við töpuðum þremur mikilvægum stigum í dag og við verðum bara að taka því og mæta sterkari til leiks næst þegar við fáum möguleika á að fá stig og gera betur. Við verðum bara að reyna að safna til okkar stigum og sjá hvar þetta endar," sagði Rúnar.

Mark Ármanns Péturs Ævarssonar: Mark Shawn Nicklaw:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×