Fótbolti

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Kýpur - Ísland 1-0 | Bitlaust og svekkjandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslendingum var snarlega kippt niður á jörðina þegar að landsliðið tapaði, 1-0, fyrir Kýpverjum ytra í undankeppni HM 2014.

Strákarnir voru í dauðafæri til að fá sex stig úr fyrstu tveimur leikjunum enda frábær sigur á Noregi að baki. Kýpur er eina liðið í riðlinum sem er fyrir neðan Ísland á styrkleikalista FIFA og fyrirfram mátti áætla að nú væri sannarlega lag fyrir góðan sprett hjá íslenska knattspyrnulandsliðinu.

En þær vonir voru að engu gerðar í kvöld. Ísland náðu sér sjaldan á strik og þegar að Constantinos Makridis kom heimamönnum yfir á 57. mínútu hafði markið legið í loftinu. Markið kom eftir snarpa sókn heimamanna þar sem vörn Íslands var leikin sundur og saman.

Alls áttu Kýpverjar átján marktilraunir í leiknum, þar af átta sem hittu á markrammann. Íslendingar áttu til samanburðar þrjár marktilraunir, þar af aðeins eina í síðari hálfleik.

Því skal þó haldið til haga að drjúgur hluti þessara marktilrauna heimamanna voru hættulausar og í raun reyndi ekki mikið á Hannes Þór Halldórsson, markvörð, sem stóð vaktina af miklum sóma eins og hann hefur alltaf gert í landsliðsbúningnum.

Allar þrjár marktilraunir Íslands voru ágætar. Birkir Bjarnason fékk tvær þeirra og báðar í fyrri hálfleik. Gylfi Þór Sigurðsson gerði vel í báðum þessum sóknum. Seinna skotið hitti á markið en Kissas í marki Kýpur varði vel.

Þriðju tilraunina, sem var einnig sú besta, átti Alfreð sem hafði komið inn á í hálfleik. Hann skaut föstu skoti í slána eftir skyndisókn Íslands, aðeins tveimur mínútum eftir mark heimamanna. Þess fyrir utan fékk hann úr nánast engu að moða.

Í fyrri hálfleik kom lítið sem ekkert úr kantspili Íslands og var því brugðið á það ráð að fórna Emil Hallfreðssyni fyrir Alfreð. Birkir Bjarnason fór á vinstri kantinn í stað Emils en lenti stundum í vandræðum með að sinna þeirri varnarvinnu sem fylgdi þeirri stöðu - til að mynda í aðdraganda marksins.

En þrátt fyrir þessa breytingu kom jafnvel enn minna úr sóknarleik Íslands í síðari hálfleik. Gylfi Þór Sigurðsson sást varla enda uppspil Íslands lítið sem ekkert. Allt of fáar fyrirgjafir komu frá köntunum og heilt yfir var vopnabúr íslenska liðsins heldur fátæklegt.

Kýpverjar gengu á lagið og sóttu hratt og ákveðið að íslenska markinu þegar tækifæri gafst. Ólíkt íslenska liðinu voru kantmenn liðsins afar líflegir og bakverðir, sérstaklega Athos Solomou hægra megin, var duglegur að hjálpa til í sóknarleiknum með góðum árangri.

Til að bæta gráu á svart fékk varnarmaðurinn Sölvi Geir Ottesen ódýrt rautt spjald þegar skammt var til leiksloka. Hann braut á markaskoraranum Makridis eftir að hafa verið of seinn í tæklingu. Makridis var á mikilli ferð og féll með miklum tilþrifum.

Það var fátt við leik íslenska liðsins sem benti til þess að í vændum væri betri tíð en verið hefur hjá íslenska liðinu síðasta áratuginn eða svo. En leikurinn í kvöld getur þó reynst dýrmæt lexía fyrir ungt lið sem hlýtur enn að teljast þrátt fyrir allt bæði efnilegt og spennandi.

Aron Einar: Þýðir ekki að leggjast í jörðina og grenja
Aron Einar Gunnarsson, fyriliði Íslands, reyndi að halda í jákvæðnina eftir 1-0 tap Íslands fyrir Kýpur í kvöld.

„Við erum allir svekktir eins og fólkið heima. Það þýðir samt ekkert að leggjast í jörðina og grenja. Við verðum að halda áfram. Nú er þessi leikur búinn og við stóðum okkur ekki nógu vel. En við verðum áfram jákvæðir og mætum grimmir í næsta leik," sagði Aron Einar við Vísi í kvöld.

„Okkur gekk illa að ná upp okkar spili og því sem var lagt upp með að gera fyrir leikinn. Við vildum fá ákveðið flæði í okkar leik, nota kantana því við vissum að þeir væru þéttir og myndu færa liðið sitt allt yfir," útskýrir hann.

„En við náðum aldrei takt við þeirra tempó í leiknum og ég held að það hafi verið fyrst og fremst það sem skipti sköpum."

Aron Einar hefur enn trú á leikkerfi íslenska liðsins, þrátt fyrir úrslitin í kvöld. „Það var okkar leikmanna á vellinum að framkvæma það sem átit að gera. Við verðum bara að læra af þessu og halda áfram. Það þýðir ekket annað."

Ragnar: Getum bara sjálfum okkur um kennt
„Það er óþolandi að hafa tapað þessum leik. Þetta er lið sem við eigum að vinna að mínu mati. Við getum bara sjálfum okkur um kennt," sagði varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson eftir tapið gegn Kýpur í kvöld.

„Við vorum með mikla trú og væntingar fyrir leikinn. Það er ömurlegt að hafa ekki náð að vera betri en þetta í dag. Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir."

„Ég man svo sem lítið eftir því hvað þeir fengu mörg færi. Þau voru ekki mörg - Hannes fékk eitt fast skot á sig utan vítateigs en meira var það ekki. Markið var svo dæmigerð sókn upp kantinn. Þeir gerðu vel í markinu."

En þrátt fyrir að Kýpverjar hafi ekki skapað mörg dauðafæri í leiknum voru þeir miklu meira með boltann og áttu mun fleiri marktilraunir.

„Við vorum langir - það var of langt á milli varnar og sóknar. Annað hvort féllum við of langt til baka eða miðjumennirnir voru of langt frá okkur."

„Heilt yfir vantaði að vera aðeins meira á tánum. Við vorum bara ekki nógu góðir."

Lagerbäck: Of mikil bjartsýni
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, segir að íslenska liðið hafi nálgast leikinn með of mikilli bjartsýni - sérstaklega þegar kom að varnarleik liðsins.

Ísland tapaði í kvöld fyrir Kýpur ytra, 1-0, eftir að hafa unnið Noreg fyrir helgi. Strákarnir náðu þó aldrei að sýna sínar bestu hliðar í dag og kom sérstaklega lítið úr sóknarleik liðsins.

„Þetta eru gríðarlega mikil vonbrigði fyrir okkur," sagði Lagerbäck við Vísi eftir leikinn. „Ég tel að við höfum verið of bjartýsnir fyrir þennan leik. Við reyndum að pressa of mikið á þá og náðum aldrei að koma okkur almennilega inn í leikinn."

Hann hrósaði þó leikmönnum fyrir að leggja sig fram. „Þeir voru duglegir og lögðu sig fram. Og þrátt fyrir að við spiluðum ekki vel náðu þeir [Kýpverjar] ekki að skapa sér það mörg færi. Þeir áttu nokkur skot sem voru ágæt en Hannes [Þór Halldórsson, markvörður] spilaði virkilega vel í kvöld og sá um þetta."

Hann sagði að það hefði erfitt að koma leik liðsins í gang þegar að varnarleikurinn gekk jafn illa og raun bar vitni.

„Við náðum aldrei að verjast nógu vel og þá verður erfitt að byggja upp sóknir. Þeir gerðu vel með því að spila grimman sóknarleik og pressuðu okkur stíft. Það gerði okkur erfitt fyrir," sagði Lagerbäck.

„Við vorum að vinna boltann á erfiðum stöðum og fyrir vikið varð lítið úr því. Engu að síður hefðum við mátt hafa betri stjórn á spilinu okkar og sendingum. Þeir gerðu vel með því að loka á okkur en það kom meira til. Meira að segja föstu leikatriðin voru léleg hjá okkur en þau hafa verið mjög góð hingað til."

Hann segir að nálgun íslenska liðsins á leikinn hafi líklega verið röng. „Kannski vorum við fullbjartsýnir fyrir leikinn, bæði ég og leikmenn, eftir leikinn gegn Noregi. Við náðum aldrei að verjast vel í leiknum og þá var erfitt að hafa aðra þætti í lagi. Það er erfiðara að spila mótsleiki en vináttulandsleiki og við þurfum að draga okkar lærdóm af þessu. Þetta var bara ekki okkar dagur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×