Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Þróttur - FH 0-3 | Meistararnir byrja vel

Stefán Árni Pálsson skrifar
Steven Lennon fagnar fyrsta marki Pepsi-deildarinnar í ár.
Steven Lennon fagnar fyrsta marki Pepsi-deildarinnar í ár. Vísir/Vilhelm
FH hóf titilvörn sína í Pepsi-deild karla með 0-3 útisigri á Þrótti í Laugardalnum í dag.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var í Dalnum og tók þessar myndir hér fyrir ofan.

Nýliðar Þróttar spiluðu vel í fyrri hálfleik en FH-ingar skoruðu eina markið í honum. Það gerði Steven Lennon sem skoraði jafnframt fyrsta mark Pepsi-deildarinnar í ár.

Staðan var 0-1 í hálfleik og allt fram á 85. mínútu þegar varamaðurinn Atli Viðar Björnsson skoraði sitt 107. mark í efstu deild. Nafni hans Guðnason bætti svo þriðja markinu við tveimur mínútum síðar.

Af hverju vann FH?

FH-ingar eru Íslandsmeistarar og það sást vel í Laugardalnum í dag. FH er með lið sem refsar við hver einustu mistök andstæðingsins og er líklega ekkert lið á Íslandi eins gott að refsa og FH. Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði liðsins, fór enn einu sinni fyrir sínu liði í dag og er greinilega að tengja saman gott tímabil frá því á síðasta ári. Hann refsaði Þrótturum illa þegar hann gaf frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamenn og Steven Lennon setti boltann í netið. Gestirnir þurftu þetta mark til að brjóta upp leikinn og ná tökum á honum. Það gekk eftir og FH fór heim í Hafnarfjörðin með þrjú stig.

Þessir stóðu upp úr

Eins og áður segir var Davíð Þór Viðarsson frábær í liði FH en það má alls ekki gleyma markverðinum Gunnari Nielsen sem var einnig magnaður  í dag. Hann verði nokkrum sinnum frábærlega og þá þegar Þróttur var komið í frábæra stöðu, jafnvel var leikmaður liðsins kominn einn gegn Gunnari. Þá tók hann ávallt á rás, gerði sig stóran og boltinn endaði alltaf beint í honum. FH-ingar gera vel þegar þeir fara upp kantana, bæði vinstri og hægri kantinn og sérstaklega ver Þórarinn Ingi Valdimarsson hættulegur á vinstri kantinum. Atli Viðar Björnsson sýndi enn einu sinni hversu ótrúlega mikilvægur hann er þessu FH liði og var hann ekki búinn að vera lengi inn á þegar hann kom boltanum í netið. 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur FH er stundum dálítið brothættur og það getur verið smá áhyggjuefni fyrir Heimi Guðjónsson, þjálfara liðsins. Kassim og Bergsveinn Ólafsson voru stundum ekki að ná að tala nægilega vel saman og þá komust Þróttarar í gegn. Það sem gekk skelfilega hjá heimamönnum var að nýta þau frábæru færi sem leikmenn liðsins fengu. Sóknarmenn liðsins verða að vera örlítið rólegri og framkvæma hlutina betur.

Hvað gerist næst?

Þróttarar mæta KR-ingum í næstu umferð og þá verður Gregg Ryder, þjálfari liðsins, að koma á aðeins meiri ró í sóknarleik liðsins. Nýliðarnir mæta sennilega tveimur af bestu liðum landsins í fyrstu tveimur umferðunum og liðið þarf að nýta sín færi um betur. FH fer vel af stað á tímabilinu en liðið tekur á móti ÍA í næstu umferð. Það er ekki að sjá að Skagamenn eigi eftir að ráða við Íslandsmeistarana en aldrei að vita. Heimir Guðjónsson þarf samt sem áður aðeins að leggjast yfir það hvernig liðið verst.





Heimir: Við getum klárlega bætt okkur varnarlega
Heimir Guðjónsson hefur verið sigursæll með FH.Vísir/Stefán
„Ég er gríðarlega ánægður með þessi þrjú stig, við vissum að þetta yrði erfiður leikur og það kom á daginn,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir sigurinn í dag.

„Við vorum pínu taugastrektir í byrjun leiksins, svona fyrstu tuttugu mínúturnar. Við náum síðan að setja á þá mark og við vissum þá að ef við myndum halda markinu hreinu, þá myndi eitthvað opnast fyrir okkur í seinni hálfleiknum, sem gerðist og við náðum að klára þetta vel.“

Heimir segir að Þróttararnir eigi heiður skilið eftir þennan leik.

„Þetta er flott lið og það heldur mjög góðu skipulagi. Það var síðan frábær stemning hér í Laugardalnum. Þeir áttu fína möguleika í leiknum og Gunnar Nielsen varði oft á tíðum mjög vel.“

Þróttur fékk fín færi í þessum leik og stundum leit varnarleikur FH ekki nægilega vel út.

„Við höfum engar sérstakar áhyggjur af varnarleiknum. Við spiluðum ekki góðan varnarleik á móti Val í síðasta leik og þetta var betra í dag. Við getum klárlega bætt okkur, það er ekki spurning.“

Davíð Þór: Mikill léttir að byrja svona vel
„Það er mjög mikill léttir að vinna fyrsta leikinn,“ segir Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir leikinn.

„Það sást kannski á okkur fyrstu tuttugu og fimm mínútur leiksins að þetta var fyrsti leikur í mótinu, við vorum stressaðir og vorum ekki að ná eins góðu spili eins og við eigum að geta en virkilega gott að byrja á 3-0 sigri.“

Davíð segir að fyrsta markið sem Lennon skoraði hafi verið gríðarlega mikilvægt og komið liðinu í gang.

„Það var gríðarlega mikilvægt að skora þetta fyrsta mark í fyrri hálfleik og þá urðu Þróttararnir aðeins að koma upp völlinn og reyna jafna leikinn. Það gerðu þeir síðustu tuttugu mínútur leiksins og þá opnaðist vörn þeirra og við nýttum okkur það mjög vel.“

Fyrirliðinn segir að mörkin sem liðið skoraði undir lok leiksins hafi verið sérstaklega glæsileg.

Karl: Vorum klárlega ekki verra liðið
Karl Brynjar Björnssonmynd/skjáskot
„Við erum ótrúlega svekktir eftir þennan leik, mér fannst við í raun vera bara flottir,“ segir Karl Brynjar Björnsson, fyrirliði Þróttar, eftir tapið.

„Við vildum sýna öllum gagnrýnisröddunum að við getum spilað fótbolta og mér fannst við gera það nokkuð vel. Mér fannst við ekki vera verra liðið í leiknum, það er alveg á hreinu.“

Karl segir að liðið hafi lagt allt í sölurnar sóknarlega undir lokin og þess vegna fengið á sig tvö mörk á stuttum tíma.

„Við vorum kannski smá þreyttir en FH sýndi að þeir eru með ákveðinn klassa þarna frammi og kláruðu þeir færin vel.“

Hann segir að liðið hafi fengið fullt af góðum færum í leiknum.

„Við verðum að fara nýta færin okkar betur. Ef ég man rétt fengum við þrjá mjög góða sénsa í dag.“

Ryder: Mjög ánægður með liðið, en við verðum að nýta færin betur
Gregg Ryder er þjálfari Þróttar.vísir/stefán
„Í dag lærðum við það að liðið verður að fara betur með þau færi sem það fær,“ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir tapið.

„Stóran hluta af leiknum vorum við alveg jafn góðir og FH-ingar. Ég er mjög ánægður með frammistöðu leikmanna liðsins en við verðum stundum að taka smá sénsa og við eigum eftir að læra helling af þessu leik.“

Gregg segir að leikmenn liðsins verði að nýta færin sín betur.

„Ég bjóst við okkur góðum í dag og það gekk eftir. Liðið var að spila flottan fótbolta og við erum með mjög góðan hóp, en í svona deild verður maður að fara betur með færin sín.“

Liðið mætir KR í næstu umferð.

„Þá þurfum við bara að spila eins og í dag, með sömu ákefð og sama leikskipulag, en þá verðum við að nýta okkur þau færin sem við fáum betur.“

Davíð í leiknum í dag.vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×