Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fylkir - Valur 2-0 | Heimaleikjahrinunni lokað með besta hætti

Árni Jóhannsson á Fylkisvelli skrifar
Gunnar Örn Jónsson með Bjarna Ólaf Eiríksson á hælunum
Gunnar Örn Jónsson með Bjarna Ólaf Eiríksson á hælunum Vísir/Valli
Fylkismenn luku heimaleikja hrinu sinni með sigri á Valsmönnum í dag. Þeir komust yfir í fyrri hálfleik og var forskotið ekki verðskuldað en þeir bættu við öðru marki í síðari hálfleik eftir að hafa verið betri aðilinn í seinni hálfleik.

Ásgeir Eyþórsson var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa fengið höfuðhögg en það er fjallað um það á Vísi.

Valsmenn byrjuðu af meiri krafti í Lautinn í Árbænum í dag og voru þeir meira með boltann fyrstu mínúturnar og náðu fyrsta færinu. Færin hjá þeim urðu þó  ekki mörg og heimamenn í Fylki komust meira inn í leikinn eftir því sem leið á.

Sóknaraðgerðir beggja liða voru þó ómarkvissar og áttu varnir beggja liða í litlum vandræðum með að eiga við þær.

Það var ekki fyrr en á 37. mínútu sem eitthvað dró til tíðinda í leiknum en þá fengu heimamenn hornspyrnu og var það Finnur Ólafsson sem tók hornspyrnuna. Fann hann kollinn á Ásgeiri Eyþórssyni sem stangaði boltann af miklu afli í netið og kom heimamönnum í forystu.

Það var hinsvegar dýrt markið en í kjölfar þess að skalla boltann þá lenti Ásgeir á varnarmanni og lá hann eftir rotaður. Ásgeir var fluttur í burtu í sjúkrabíl en stóð þó upp sjálfur og lagðist á sjúkrabörurnar og því vonandi voru þetta varúðarráðstafanir.

Hálfleikurinn leið síðan án atvika og heimamenn með forskot í hálfleik 1-0.

Það hefur eflt heimamenn að hafa náð að fara inn í hálfleikinn með forystu en þeir komu mikið ákveðnari út í seinni hálfleikinn og voru mun betri en þeir höfðu sýnt í þeim fyrri. Færasköpun lét þó á sér standa en bæði lið náðu að verjast sóknaraðgerðum hvors annars.

Heimamenn bættu við öðru marki þegar 18 mínútur lifðu af leiknum en þá náði Ásgeir Örn Arnþórsson að plata Tonny Mawejje upp úr skónum inn í teig Valsmanna en Tonny krækti í löppina á honum og felldi. Klárt víti og benti dómari leiksins réttilega á punktinn.

Oddur Ingi Guðmundsson steig á punktinn og þrumaði boltanum á mitt markið en markvörður Valsmanna hafði hent sér til vinstri og átti því lítinn möguleika á að verja vítið.

Það sem eftir lifði leiks spiluðu heimamenn af mikilli skynsemi, þeir héldu boltanum þegar á þurfti að halda og hreinsuðu línuna sína þess á milli. Valsmenn reyndu að auka sóknarþunga sinn en komust lítt áleiðis og Fylkismenn sigldu stigunum heim.

Fylkir fjarlægist fallbaráttu pakkann jafnt og þétt en þeir eru komnir upp í fimmta sæti með sigrinum í dag en þeir jöfnuðu Valsmenn að stigum. Hlíðarendapiltar sigla hinn margfræga lygna sjó og virðist tímabilið vera fjara út hjá þeim í engir keppni. Hvorki um Evrópusæti né í botnbaráttu.

Leikmenn Fylkis huga að markaskoranum Ásgeiri Eyþórssyni.Vísir/Valli
Ásmundur Arnarsson: Karakterinn í strákunum landaði þessu

Þjálfari Fylkis var að vonum ánægður með sigur sinna manna í kvöld. Hann var spurður hvort að heimaleikjahrinan hafi ekki verið til góðs fyrir liðið upp á framhaldið „Við lögðum þennan leik upp þannig að ef við næðum sigri í dag þá gætum við litið sáttir til baka. Það er ágætt að ná 13 stigum úr sjö leikjum og við erum sáttir.“

„Ég er fyrst og fremst ánægður með stigin þrjú sem við fengum ég held að það hafi verið fyrst og fremst vinnusemi og barátta sem landar þessum sigri en við lentum náttúrulega í basli og þurftum að gera þrjár breytingar vegna meiðsla í okkar röðum. Við þurftum til dæmis að skipta báðum miðvörðunum út og er það ekki óskastaða í svona leik. Við þurfum aðeins að skerpa á áherslum og breyta skipulaginu í hálfleik en viljinn var til staðar og karakterinn í strákunum var mikill og hann landaði þessu.“

Ásgeir Eyþórsson var fluttur á sjúkrahús til athugunar eftir höfuðhögg en Ásmundur gat ekki flutt fleiri fréttir en þær að hann hafi verið rankaður úr rotinu áður en sjúkrabíllinn kom. „Hann mundi ekkert hvað gerðist þannig að þeir sögðu að einhver annar hefði skorað þannig að það kemur í ljós hvernig hann fréttir það.“

„Það kemur í ljós hversu langt við förum, allir leikirnir telja og við fengum þrjú stig í dag, síðan verðum við bara að sjá hvað gerist í framhaldinu“, sagði Ásmundur að lokum þegar spurt var um lokakafla mótsins.

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, býr sig undir að senda boltann.Vísir/Valli
Magnús Gylfason: Þurfum rífa okkur upp á rassgatinu og fara að geta eitthvað

„Það vantaði í fyrsta lagi að nýta færin, við fengum færi til að skora og vera komnir yfir áður en þeir skora fyrsta markið“, voru fyrstu viðbrögð þjálfar Vals þegar hann var spurður hvað hafi vantað upp á hjá hans mönnum í dag.

„Þeir ógna dálítið úr föstum leikatriðum og það vantaði örlítið meiri einbeitingu þar, þeir höfðu fengið dauðafæri úr föstu atriði áður en þeir skora. Ég var ánægður lengst af með mína menn í fyrri hálfleik en það vantaði bara að halda áfram og skapa sér fleiri færi.“

„Það getur verið að það hafi vantað meiri kraft í síðari hálfleik þótt að mér hafi fundist við byrja hálfleikinn betur og af krafti og líklegari til að jafna en eftir að þeir komast í 2-0 þá fannst mér við ekki gera nóg til að fá eitthvað út úr þessum leik.“

Um lokasprettinn í deildinni en Valsarar sigla nokkuð lygnan sjó, hafði Magnús að segja: „Við verðum bara að taka því sem höndum ber, við höfum komið okkur í þessa stöðu sjálfir, Fylkismenn hafa verið í botnbaráttu og komu grimmir í þennan leik og það skildi að liðin í dag. Það var ekki sami vilji hjá okkur í dag og ef við hefðum unnið í dag hefði verið smá möguleiki á því að blanda sér í Evrópubaráttuna. Ég ætla ekki að velta því neitt meira fyrir mér, við verðum bara að einbeita okkur að okkur sjálfum og rífa okkur upp á rassgatinu og fara að geta eitthvað. Við höfum verið lélegir síðustu vikurnar.“

Vísir/Valli
Vísir/Valli
Vísir/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×