Körfubolti

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Stjarnan - Njarðvík 89-86 | Stjarnan jafnaði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ásgarði skrifar
Stjarnan jafnaði metin í rimmu sinni gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla eftir sigur í jöfnum og spennandi leik liðanna í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Njarðvík var oftast með undirtökin í kvöld en Stjarnan jafnaði metin þegar fjórar mínútur voru til leiskloka og voru svo sterkari á lokasprettinum, þegar mest á reyndi.

Svekkjandi niðurstaða fyrir gestina sem hefðu getað komið sér í kjörstöðu með sigri í kvöld. Leikmenn löguðu skotnýtinguna eftir því sem leið á leikinn en lykilmenn hafa oft spilað betur en í kvöld. Það var þó mikill hugur í báðum liðum og útlit fyrir áframhaldandi spennandi rimmu þeirra sem gæti allt eins ráðist í oddaleik.

Leikmenn skutu illa í fyrri hálfleik, sérstaklega Stjörnumenn sem voru í miklu basli utan þriggja stiga línunnar (1/12). Dagur Kár Jónsson, hin frábæra skytta, fann sig engan veginn og var stigalaus eftir sex skottilraunir.

Leikurinn var þó jafn þó svo að Njarðvíkingar hafi oftar verið skrefi framar, og það þrátt fyrir að Bonneau hafi verið langt frá sínu besta með níu stig og 2/11 skotnýtingu. Aðrir stigu upp og skoruðu átta leikmenn stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik, þar af Logi tólf.

Ágúst Angantýsson var ekki með Stjörnunni vegna veikinda og munaði um minna. Jón Orri Kristjánsson spilaði af þeim sökum meira en hann er vanur en Stjörnumönnum gekk illa að finna hann í teignum og var hann stigalaus í fyrri hálfleik.

Atkinson var aðalmaður Stjörnunnar fyrir leikhlé og skoraði hann nítján stig, tæplega helming allra stiga heimamanna. Án hans hefðu Garðbæingar verið í miklu basli en þeir þurftu meira til fá fleiri mönnum til að taka frumkvæðið í seinni hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði með látum og átti eftir að gefa tóninn fyrir það sem koma skyldi. Bonneau skoraði fyrstu þrjú stig hálfleiksins en Stjarnan svaraði skyndilega með tólf stigum í röð og náði forystu.

Það stóð þó stutt yfir og gestirnir voru fljótir að ná áttum. Eftir það var jafnræði með liðunum og magnaðist spennan með hverri mínútunni.

Dagur Kár var enn stigalaus þegar fjórði leikhluti hófst og eftir ellefu misheppnuð skot í röð kom loksins að því að hann hitti. Við það hrökk hann í gang, skoraði sjö stig á stuttum tíma og sá til þess að Njarðvíkingar náðu ekki að stinga af.

Justin Shouse hefur oft látið meira til sín taka en í kvöld en hann er mikill stemningsmaður og brást ekki sínum mönnum á ögurstundu. Hann setti niður tvo þrista í röð þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og reyndist það vítamínssprautan sem Stjörnumenn þurftu til að taka af skarið.

Shouse skoraði síðustu fjögur stig sinna manna á vítalínunni þó svo að þristur Ágústar Orrasonar hafi gefið gestunum tækifæri. Maciej Baginski fékk tækifæri til að tryggja Njarðvík framlengingu á lokasekúndunni en Atkinson, sem var öflugur í kvöld, varði skot hans og tryggði sigur heimamanna.

Atkinson skoraði 28 stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar í kvöld en Shouse kom næstur með 23 stig. Marvin var svo drjúgur eins og oft áður með átján stig.

Hjá Njarðvík var Logi bestur með 27 stig en Bonneau hefur oft hitt betur (7/23) og skoraði 20 stig. Hann tók þó fjórtán fráköst og hætti aldrei að berjast.

Næsti leikur fer fram í Njarðvík á fimmtudagskvöldið.





Dagur Kár: Ég átti erfitt uppdráttar

Dagur Kár Jónsson hefur oft hitt betur en í kvöld en hann skoraði þó afar mikilvæg stig fyrir sína menn á mikilvægu augnabliki í fjórða leikhluta.

„Það var frábært að spila á okkar heimavelli, fyrir framan okkar áhorfendur. Það fékk okkur til að halda einbeitingu allan tímann,“ sagði Dagur.

„Við vorum að spila vel, fannst mér að mestu leyti. Þó svo að við misstum þá aðeins fram úr okkur þá náðum við alltaf að koma til baka.“

Dagur klikkaði á fyrstu ellefu skotunum sínum í kvöld en skoraði þó sjö mikilvæg stig í fjórða leikhluta. „Ég átti bara erfitt uppdráttar í kvöld, eins og gengur og gerist. Mér fannst ég skjóta boltanum ágætlega en hann vildi bara ekki ofan í. En ég á frábæra liðsfélaga sem héldu áfram að berjast og kláruðu þetta.“

„Það er varla hægt að lýsa því hversu mikilvægt það var að vinna þennan leik. Það hefði verið nánast búið að vera 2-0 undir og eiga útileik í þriðja leik.“

„En nú er jafntefli í seríunni og við erum tilbúnir að klára þetta. Við eigum fullt inni og hlökkum til að mæta í Ljónagryfjuna aftur.“

k.“

Hrafn: Atkinson hleypur stundum kapp í kinn

Hrafn Kristjánsson segist aldrei hafa misst trúna á sínum mönnum þó svo að Njarðvík hafi oftar verið skrefi framar en hans menn í kvöld.

„Þetta stóð tæpt en við náðum að hanga í þeim. Við vorum ákveðnir í að breyta ákveðnum hlutum fyrir leikinn og þeir gengu loksins upp í fjórða leikhluta,“ sagði Hrafn án þess að fara nánar út í þau áhersluatriði.

„Við reynum að byggja áfram á því fyrir næsta leik. Þetta eru ákveðnir taktískir þættir sem við sáum að virkuðu vel í fyrsta leiknum, eftir að við skoðuðum hann betur á upptökum en það er stutt á milli leikja og við náðum ekki að framkvæma þá nógu vel í byrjun leiks.“

Hann missti aldrei trúna á sínum mönnum í kvöld. „Dagur Kár er ofboðslega sterkur karakter og kemur inn þegar okkur gengur illa og setur sjö stig í röð. Það hélt okkur inn í leiknum þá og skipti miklu máli.“

Jeremy Atkinson, sem skoraði 38 stig og tók þrettán fráköst, var mikilvægur í kvöld og varði til að mynda síðasta skot leiksins. Hrafn ákvað þó að hvíla hann í upphafi fjórða leikhluta þar sem að hann var orðinn nokkuð æstur.

„Hann er mikill keppnismaður og honum hleypur stundum kapp í kinn. En hann er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað sóknarleik í mörgum stöðum. Hann hefur verið góður liðsstyrkur.“

Logi: Áfram gakk

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur, var fljótur að jafna sig á því að hafa tapað leiknum og var strax byrjaður að líta fram á veginn.

„Við vorum yfir á tímabili en þeir voru líka góðir og kláruðu sóknirnar sínar vel í lokin. Þeir nutu þess að vera yfir og kláruðu sitt af vítalínunni. Ég er þó ekkert ósáttur við okkar leik enda skiptust liðin á að halda forystu. Svoleiðis er það bara og maður verður að bera virðingu fyrir andstæðingnum og það sem hann gerir vel,“ sagði Logi.

„Þetta er úrslitakeppnin og tvö góð lið að spila.“

Logi segir að það hafi ekki skipt máli þó svo að Stefan Bonneau hafi ekki hitt jafn vel í kvöld og oft áður. Það þýðir ekki að treysta á einn mann.

„Við höfum verið að spila mjög vel sem lið í þessum tveimur leikjum og ekki að stóla um of á hann. Aðrir hafa verið að stíga upp og skora mikilvægar körfur.“

„Við höfum því ekki áhyggjur þó svo að við töpuðum í kvöld. Staðan er 1-1 í rimmunni og nóg eftir. Það er bara gaman og maður segir bara áfram gak

Bein textalýsing:

Leik lokið | 89-86: Shouse setti bæði niður og Maciej fékk skotfæri rétt utan þriggja stiga línunnar, sem hefði jafnað fyrir Njarðvík. En Atkinson gerði sér lítið fyrir og varði skotið. Þvílíkur endir.

40. mín | 87-86: Ágúst Orra setur niður þrist og svo virðist vera dæmd ásetningsvilla á Njarðvík. Það er leikhlé, væntanlega sem dómarar taka, og ræða þeir málin. Stjarnan fær innkast þegar 9,8 sekúndur eru eftir.

40. mín | 87-83: Bonneau klikkaði á skoti og Stjörnumenn náðu frákastinu. Brotið á Shouse þegar fjórtán sekúndur voru eftir og hann jók muninn í fjórtán stig, sem gerir svo gott sem út um leikinn. Njarðvík tekur leikhlé og reynir að teikna um fjögurra stiga sókn. Það virkaði hjá Stjörnunni í fyrsta leiknum.

40. mín | 85-83: Stjörnumenn héldu áfram að leita á Jón Orra undir körfunni sem hefur verið drjúgur í baráttunni þar. Vítanýtingin hans er þó ekki frábær og klikkaði hann á öllum þremur sem hann fékk á lokamínútunni. Það gefur Njarðvíkingum von. 30 sekúndur eftir.

39. mín | 85-81: Jón Orri með troðslu og eykur muninn í fjögur stig. Húsið tryllist, eins og gefur að skilja.

37. mín | 79-79: Atkinson jafnaði metin en Maciej svaraði með þristi. Njarðvíkingar hafa alltaf átt svar. En þá kemur Shouse og setur niður þrist. Stjarnan vinnur svo boltann og Shouse setur niður annan þrist. Tröllaþrist. Ótrúlegt. Nei bíddu, Logi setur líka niður þrist. Þvílíkur leikur.

34. mín | 69-71: Fyrsti þristurinn hjá Degi. Kemur á mikilvægum tíma. Bonneau var þá nýbúinn að fá tæknivillu. Atkinson gat svo komið Stjörnunni yfir en klikkaði á þristi.

32. mín | 64-69: Þá kom það loksins, fyrstu stig Dags. Hann var 0/11 fyrir þetta skot. Njarðvíkingar hafa haldið Atkinson í aðeins fimm stigum í seinni hálfleik en Bonneau er kominn upp í átján.

3. leikhluta lokið | 60-65: Njarðvíkingar náðu að halda dampi eftir þetta óvænta hrun hjá þeim í upphafi hálfleiksins. Meiri stemning hjá gestunum eins og er en Dagur Kár er enn stigalaus. Ótrúlegt hjá manni sem er með nítján stig að meðaltali í vetur.

24. mín | 54-57: Þessi leikur var að snúast við, aftur. Þarf svo lítið til að kveikja í liðunum. Flott keyrsla á Njarðvíkurliðinu og Logi var að setja niður erfiðan þrist. Hann var með Marvin í sér sem var stálheppinn að fá ekki á sig villu.

23. mín | 52-46: Ja, hérna. Tólf stig frá Stjörnunni í röð, þar af tveir þristar, og Njarðvíkingar klikka á meðan á tveimur galopnum þristum. Síðara skotið hitti ekki einu sinni hringinn hjá Hirti Hrafni. Dagur Kár fékk svo galopinn þrist fyrir Stjörnuna og gat aukið muninn í níu stig en hann klikkaði líka. Njarðvík tekur leikhlé.

21. mín | 40-46: Bonneau byrjar á því að keyra upp að körfu eins og svo oft áður, nú hittir hann og fiskar villu á Dag Kár. Setur niður vítið líka.

Villuvandræði: Stjörnumenn aðeins með sex villur alls, þar af Shouse með tvær. Tíu villur hjá Njarðvíkingum og þar er Hjörtur Hrafn með þrjár á aðeins sex mínútum.

Tölfræði fyrri hálfleiks: 24-20 fyrir Njarðvík í fráköstum, 7-3 í sóknarfráköstum. Dagur er 0/6 í skotum og Bonneu 2/11. 2ja stiga skotnýting: 59%-50%. 3ja stiga skotnýting: 8%-28%. Stjörnumenn eru 1/12 í þristum, Atkinson sá eini sem hefur sett niður þriggja stiga körfu. Tapaðir boltar 5-5.

Hálfleikur | 40-43: Dagur klikkar á lokaskoti Stjörnumanna í fyrri hálfleik og er því enn án stiga. Stórfurðulegt að sjá hjá þessari frábæru skyttu. Bonneau náði reyndar að setja niður einn þrist fyrir gestina hér í lokin en hann er einnig langt frá sínu besta. Stigaskorið hefur dreifst betur í öðrum leikhluta hjá Njarðvík en Atkinson (19 stig) og Marvin (11 stig) eru í aðalhlutverki hjá heimamönnum.

18. mín | 35-38: Sex stig í röð hjá Stjörnunni en Dagur Kár er enn stigalaus. Núll af fjórum og munar um minna.

16. mín | 29-38: Saga leiksins hingað til í síðustu sókn. Bonneau klikkar, Njarðvíkingar hafa betur í frákastinu og Ólafur Helgi setur niður tröllaþrist. Í svona jafnri viðureign eru atriði sem þessi risastór. Hrafn tekur leikhlé. Bonneu aðeins með sex stig.

14. mín | 25-30: Ragnar Helgi Friðriksson með magnaða takta, skorar með sniðskoti aftur fyrir sig - blint á körfuna.  Annars hafa leikmenn verið nokkuð mistækir í skotunum og lítið hefur dottið fyrir þá. Ragnar Helgi verður átján ára á árinu.

1. leikhluta lokið | 23-26: Stjarnan leiddi fram á lokamínútu leikhlutans en þá fiskaði Bonneau óíþróttamanslega villu á Tómas og gestirnir náðu að bæta einni körfu við í lokin. Fín barátta hjá báðum liðum og stefnir í góðan leik. Atkinson með fjórtán stig og Logi tíu.

7. mín | 18-14: Fyrir utan þrist hjá Loga hafa heimamenn átt síðustu mínútur. Þeir hafa náð að loka á Bonneau, sem er stigalaus, og Atkinson hefur byrjað af miklum krafti.

5. mín | 9-11: Heimamenn byrjuðu hægt og Njarðvík komst í 6-0. En Stjörnumenn hafa hert tökin í vörninni og gengið á lagið. Smá stress í liðunum en Logi róar sína menn með þristi.

1. mín | 0-2: Njarðvíkingar vinna uppkastið og Njarðvíkingar skora fyrstu stigin. Ágúst er þar að verki.

Fyrir leik: Ágúst Angantýsson, sem er öflugur varnarmaður, er ekki með Stjörnunni í kvöld. Jón Orri Kristjánsson verður því væntanlega í stærra hlutverki en vanalega í kvöld. Þeir hafa skipt með sér mínútum í vetur en báðir voru með um nítján mínútur í fyrsta leiknum í einvíginu.

Fyrir leik: Hinn margreyndi Logi Gunnarsson, landsliðsmaður Njarðvíkinga, var sínum mönnum dýrmætur á lokasprettinum í fyrsta leiknum. Hann skoraði í nítján stig, þar af ellefu í fjórða leikhluta og framlengingunni, og sá fyrir afar mikilægum körum hjá sínum mönnum.

Fyrir leik: Stjörnumenn skoruðu aðeins 28 stig í síðari hálfleik í fyrsta leiknum, þar af sex í þriðja leikhluta. En ótrúleg kænska Dags Kárs Jónssonar sá til þess að Stjörnumenn skoruðu fjögur stig í lokasókn sinni í venjuleg leiktíma og tryggðu sér framlengingu. En í henni voru Njarðvíkingar sterkari aðilinn.

Fyrir leik: Þetta er vitaskuld einkar mikilvægur leikur fyrir Stjörnuna í þessu einvígi. Tapi þeir þurfa þeir að fara til Njarðvíkur á fimmtudag og berjast þar fyrir lífi sínu. Vinni Garðbæingar hér í kvöld fá þeir einn heimaleik í viðbót í einvíginu.

Fyrir leik: Stefan Bonneau skoraði 30 stig, fiskaði 14 villur og gaf 7 stoðsendingar í 88-82 sigri Njarðvíkur á Stjörnunni í fyrsta leiknum en hann hvíldi í aðeins fimm sekúndur í þeim leik. Hinn magnaði Bonneau er með 36,3 stig að meðaltali í leik í vetur.

Fyrir leik: Stjarnan vann 87-80 sigur á Njarðvík í deildarleik liðanna í Ásgarði þar sem Stjörnumenn unnu lokaleikhlutann 30-17. Bæði lið hafa skipt um Bandaríkjamenn síðan í þeim leik.

Fyrir leik: Stjörnumenn unnu 9 af 11 heimaleikjum sínum í deildinni eða alla leiki nema þá á móti toppliðunum tveimur, KR og Tindastól.

Vísir/Ernir
Vísir/Ernir
Vísir/Ernir
Vísir/Ernir
Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×