Lífið

Umferðin vék fyrir hjartanu

Elín Albertsdóttir skrifar
Það kom Ragnheiði mikið á óvart hvað kennitalan skiptir miklu máli þegar sótt er um vinnu. "Ég sótti um margar stöður og komst oft í viðtal en ekki meira. Til dæmis sótti ég tvisvar sinnum um stöðu fræðslufulltrúa hjá Umferðarstofu en þeir höfðu ekki not fyrir reynslu mína og hæfileika þar.“
Það kom Ragnheiði mikið á óvart hvað kennitalan skiptir miklu máli þegar sótt er um vinnu. "Ég sótti um margar stöður og komst oft í viðtal en ekki meira. Til dæmis sótti ég tvisvar sinnum um stöðu fræðslufulltrúa hjá Umferðarstofu en þeir höfðu ekki not fyrir reynslu mína og hæfileika þar.“ Mynd/GVA
Löggan. Ragnheiður og Sveinn Stefánsson lögreglumaður fyrir utan Alþingishúsið. Lögreglukonur ganga ekki lengur í pilsi eins og þarna tíðkaðist.
Ragnheiður Davíðsdóttir var eitt helsta andlit umferðaröryggis á landinu um áratuga skeið. Núna starfar hún hjá Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þess auk þess að vera í háskólanámi.

Ragnheiður hefur starfað sem framkvæmdastjóri Krafts í tæp tvö ár og segir það afar áhugavert starf. „Það er kannski merkilegt en þetta er ekkert svo ósvipað fyrra starfi mínu. Í báðum tilfellum er ég að berjast fyrir ákveðnum hagsmunum. Hjá VÍS var ég alltaf að búa til forvarnarefni umferðarmála og var í sambandi við einstaklinga sem höfðu lent í alvarlegum slysum. Hér hjá Krafti er ég í sambandi við ungt fólk sem glímir við alvarlegan sjúkdóm. Aftur á móti er Kraftur góðgerðarfélag sem nýtur mikillar velvildar en tryggingafélög eru alltaf umdeild,“ útskýrir Ragnheiður.

„Þetta starf getur verið ansi erfitt. Það er átakanlegt þegar ungt fólk greinist með krabbamein. Maður upplifir sorgina sem fylgir því að greinast. Einnig finn ég sterkt hversu víðtæk áhrif þetta hefur á alla fjölskylduna. Það hjálpar manni að hafa langa reynslu af því að umgangast fólk sem hefur misst einhvern nákominn, slasast eða jafnvel orðið fatlað eftir bílslys.“

Þegar Ragnheiður er spurð hvort hún sakni þess að vasast í umferðarmálum, svarar hún því neitandi. „Ætli það hafi ekki verið kominn tími á breytingar,“ svarar hún. „Ég hafði aldrei ætlað að helga líf mitt umferðarmálum. Það æxlaðist þó þannig, fyrst sem lögreglumaður, svo starfsmaður Umferðarráðs, blaðamaður og loks forvarnarfulltrúi VÍS,“ segir Ragnheiður sem var ein af fyrstu lögreglukonum landsins. „Ég hef alltaf starfað í þessum karllæga heimi, ef hægt er að segja svo. Núna finnst mér ég vinna með hjartanu. Þetta er krefjandi starf en sömuleiðis gefandi.“



Peningar eða forvarnir

Ragnheiður hætti ekki sjálfviljug hjá VÍS heldur var henni sagt upp. „Mér var sagt upp störfum eftir fimmtán ára starf. Það helgaðist af áherslumun á milli mín og nýrra eiganda VÍS. Þeir hugsuðu fyrst og fremst um afkomu og hagnað á meðan ég vildi halda áfram góðu forvarnarstarfi í þágu allra landsmanna en ekki bara meðal viðskiptavinanna. Það kostar peninga að halda úti góðri ímynd fyrirtækis. Ég varð hins vegar mjög hissa þegar mér var sagt upp. Á því átti ég ekki von. Forvarnarstarf VÍS var ákveðið brautryðjendastarf og mér tókst að gera það áberandi í samfélaginu. Fyrirtækið var bara ekki það sama eftir eigendaskipti. Það veit enginn sinn næturstað þegar eigendaskipti verða í fyrirtækjum hér á landi. Nýir stjórnendur koma með nýja siði.“

Æskudýrkun á vinnumarkaði

Ragnheiður er sextug. Töluverð umræða er í þjóðfélaginu um erfiðleika kvenna 50+ að fá atvinnu. Fann hún fyrir þessari æskudýrkun á vinnumarkaðnum? „Já, og það kom mér virkilega á óvart að finna fyrir aldursfordómum. Mér finnst ég ekki gömul og hafði ekki gert mér grein fyrir að kennitalan skipti svona miklu máli. Ég hafði aldrei spáð í aldur fólks. Ég er með góða reynslu og menntun og taldi mig mjög vel gjaldgenga í atvinnulífinu. Það var því svolítið erfitt að upplifa höfnun. Ég sótti um margar stöður og komst oft í viðtal en ekki meira. Til dæmis sótti ég tvisvar sinnum um stöðu fræðslufulltrúa hjá Umferðarstofu en þeir höfðu ekki not fyrir reynslu mína og hæfileika þar.

Ég var þó líka heppin, fékk nokkur skemmtileg verkefni upp í hendurnar, meðal annars að vinna með Á allra vörum. Maður verður svolítið ráðvilltur eftir uppsögn en það besta sem ég gerði var að drífa mig aftur í nám. Ég átti eftir að klára BA-próf í íslensku. Síðan fór ég í meistaranám í ritstjórn og útgáfu og er að ljúka því. Það var ofboðslega gaman að fara aftur að læra. Mig langar helst af öllu að halda áfram og fara í doktorsnám. Maður tekur námið á allt annan og þroskaðri hátt en þegar maður var yngri. Þegar ég var í námi áður fyrr var ekkert internet og það er gaman að kynnast kostum þess og möguleikum í náminu núna.“

Með ungu fólki

Það var skemmtilegt þegar ég sótti um starfið í Krafti að ungt fólk skyldi ráða mig í vinnu. Þau eru víðsýn að velja konu á mínum aldri úr stórum hópi umsækjenda. Núna er ég svona mamman í hópnum og þau njóta góðs af reynslu minni og tengslaneti. Að vinna með ungu fólki er svo yngjandi að það er miklu betra en bótox,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður er gift Jóhanni Óskarssyni en þau eiga tvo syni og fimm barnabörn. Jóhann hefur lengi glímt við liðagigt sem gerði hann að öryrkja og í vetur fór hann í stóra hjartaaðgerð sem hann er að ná sér eftir. Það hefur því verið erfiður vetur hjá þeim hjónum. „Við Jói höfum verið gift síðan ég var 17 ára, hann var æskuástin mín. Okkur finnst rosalega gaman að vera amma og afi og njótum þess mikið. Þegar alvarleg veikindi koma upp áttar maður sig á því hvað sé í raun dýrmætast í lífinu. Ekki peningar eða einhver fín staða heldur heilsan og fjölskyldan. Jói er mikill listamaður og býr til falleg hús til að hafa í glugga, krummaóróa og fleira. Við rekum lítið fyrirtæki í kringum þetta sem heitir Skuggaform.“

Ritgerð um auglýsingar

Þegar Ragnheiður er spurð hvað hún ætli að gera um helgina, segist hún þurfa að skrifa rannsóknarskýrslu fyrir skólann. Hún þarf sömuleiðis að skrifa skýrslu stjórnar fyrir aðalfund Krafts og svo bíður garðvinna. „Þrjár 20 metra háar aspir féllu í óveðrinu sem búið er að fjarlægja en þarf að laga eftir,“ segir hún og bætir við. „Um páskana bíða mín ritgerðarskrif. Það kemur líklega engum á óvart að mastersritgerðin fjallar um almannaheillaauglýsingar í umferð,“ segir Ragnheiður sem er líkamlega vel á sig komin, hljóp tíu kílómetra í maraþoni í fyrrasumar fyrir Kraft og gengur reglulega á fjöll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×