Innlent

Umferð í Hvalfjarðargöngum jókst um 10,6 prósent

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Umferð í Hvalfjarðargöngum hefur verið mikil undanfarin misseri, sem skýrist meðal annars af auknum fjölda ferðamanna hér á landi.
Umferð í Hvalfjarðargöngum hefur verið mikil undanfarin misseri, sem skýrist meðal annars af auknum fjölda ferðamanna hér á landi. Fréttablaðið/Pjetur
Umferð í Hvalfjarðargöngum jókst um 10,6 prósent í febrúarmánuði. Á sama tíma jókst umferð á hringveginum um 15,3 prósent en tíðarfar í síðasta mánuði var óvenju hagstætt til ferðalaga. Umferðin jókst mest á Austurlandi en minnst á Suðurlandi.

Þetta kemur fram á vef Spalar. Þar er bent á að í fyrra var hlaupár og dagarnir því einum fleiri í febrúar þá en nú, og að ef miðað væri við 28 febrúardaga næmi umferðaraukning í göngunum 14,4 prósent.

Þá varð um 11 prósent aukning á umferð um og við höfuðborgarsvæðið. „sem er mjög mikið þegar haft er í huga að þar er umferðin auðvitað mest og þyngst á landinu öllu,“ segir Spölur í tilkynningu sinni.

Janúarumferðin sú langmesta í sögunni

Aukningin var svipuð í janúarmánuði, eða 11 prósent, frá sama mánuði í fyrra. Spölur segir það eftirtektarvert því fiskflutningar á þjóðveginum hafi verið óverulegir vegna sjómannaverkfallsins – skýringin sé því erlendir gestir á ferð um landið.

Þannig hafi janúarumferðin verið sú langmesta í sögu Hvalfjarðarganga. „Og það þótt að fiskiskipafloti landsmanna sé í höfn vegna verkfalls, fiskvinnslan lömuð og tilheyrandi umferð á þjóðvegum í lágmarki.  Áhrif ferðamannastraumsins koma því þarna berlega í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×