Innlent

Umferð gengur vel

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umferðin mun þyngjast eftir því sem líður á daginn.
Umferðin mun þyngjast eftir því sem líður á daginn. VÍSIR/Stefán
Umferð hefur gengið áfallalaust fyrir sig í dag og í gær en landsmenn eru á faraldsfæti vegna verslunarmannahelgarinnar.

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu segir að umferð sé mikil úr bænum eins og við var að búast og muni þyngjast eftir því sem líður á daginn. Lögreglan hefur verið með og mun vera með ómerktan bíl til þess að fylgjast með umferðinni frá höfuðborgarsvæðinu en 53 bílar af 527 bílum voru myndaðir vegna hraðabrota á Suðurlandsvegi milli 11 og 12 í dag.

Lögreglan brýnir fyrir ökumönnum að sýna þolinmæði á vegum landsins:

„Það er mikilvægt að virða gildandi reglur og sýna tillitsemi og þolinmæði. Fara bara varlega, slappa af og taka þessu rólega.“

Margir á leið til Akureyrar og Vestmannaeyja

Á Akureyri fer fram Unglingalandsmót UMFÍ ásamt hátíðinni Einni með öllu og reiknar lögreglan á Akureyri með því að fjöldi fólks stefni til Akureyrar. Umferðin hefur gengið vel norður á land.

„Það er búið að vera heilmikil umferð en þetta er allt búið að ganga vel. Það kom mikið af fólki í gær vegna Unglingalandsmótsins en við reiknum með að því fjölgi í dag.

Það sama segir lögreglan á Suðurlandi enda margir á leiðinni á Þjóðhátíð í Eyjum.

„Það eru margir á leiðinni í Herjólf og umferðin er mikil, bæði jöfn og þétt. Við búumst við aukningu seinnipartinn.“

Mikilvægt að passa lömbin.

Á Ísafirði fer Mýrarboltinn fram en lögreglan á Ísafirði biður fólk um að hafa lömbin í huga.

„Við viljum minna fólk að passa sig á lömbunum. Það er búið að keyra nokkur niður en þau ganga laus í Djúpinu.“



Umferðin vestur á firði hefur líkt og á hina staðina gengið vel. Talsverð umferð var í gær en hefur verið róleg framan af degi í dag. Býst lögreglan við að umferðin þyngist eftir því sem líður á daginn.


Tengdar fréttir

Einn einfaldur er eina klukkustund úr líkamanum

Sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS segir mikilvægt að ökumenn hafi í huga hvað áfengi er lengi að hverfa úr líkamanum vilji þeir ekki verða sviptir ökuleyfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×