Skoðun

Umferð án umhyggju

Stefán Hjálmarsson skrifar
Ég heiti Stefán og ég gef stefnuljós. Það er ekki alltaf auðvelt að tilheyra þessu 1% þjóðarinnar sem gefur stefnuljós, í mínu tilviki byrjaði þetta strax um 17 ára aldurinn, hugsanlega var það félagsskapurinn sem leiddi mig út á þessa braut, hann Guðmundur ökukennari sem ég umgekkst mikið á tímabili kom mér upp á þessa hegðun, einnig man ég að faðir minn heitinn gaf alltaf stefnuljós þannig að hugsanlega er þetta genatengt og þess vegna lítið sem ég get gert til að breyta mér, eða hvað.

En trúið mér, ég hef reynt að hætta þessu til að líkjast meir fjöldanum, það er nefnilega oft erfitt að synda á móti hefðbundnum siðum og venjum, vera öðruvísi en allir hinir, en mér mistókst. Hugsanlega fékk ég ekki nægan stuðning frá mínum nánustu, hugsanlega ber ég of mikla virðingu fyrir samborgurum mínum, þykir jafnvel ofurlítið vænt um þá marga hverja, en já tvívegis reyndi ég að hætta, en ég féll og í síðara skiptið svo illa að ég gafst endanlega upp, ég er eins og ég er, ég er stefnuljósari og er farinn að sætta mig við það.

Ég fæ ekkert út úr því að sjá umferðina tefjast og hiksta áfram í óvissu um hvað næsti ökumaður ætli að gera, sé ekkert spaugilegt við að sjá bíla bíða við hringtorg og þora ekki af stað vegna þess að ómögulegt er að sjá hvort ökumenn ætla að beygja eða halda áfram, fæ engan fiðring við að sjá meðborgarana hætta lífi sínu af því þeir lásu rangt út úr hegðun næsta ökumanns. Það er bara of auðvelt að nota þessa litlu stöng vinstra megin við stýrið, og ekki er kostnaðurinn að stöðva mig, þessar stefnuljósaperur endast svo árum skiptir og kosta bara nokkrar krónur og fást víða, já eiginlega bara um land allt.

Nei, ég mun halda áfram að sýna ykkur ökumönnum þá virðingu og umhyggju að gefa stefnuljós, þótt ég sé að synda á móti straumnum, sama hvað ykkur finnst um mig, get bara vonað að þið umberið þessa sérvisku okkar sem fylgjum umferðarlögum þessa lands.




Skoðun

Sjá meira


×