Innlent

Umfangsmiklar lögregluaðgerðir í miðbænum

Kjartan Atli Kjartansson og Frosti Logason skrifar
Fjölmennt lið lögreglu í miðbænum.
Fjölmennt lið lögreglu í miðbænum.
Fjölmennt lið lögreglu var kallað út að horni Barónstígs og Grettisgötu í miðbæ Reykjavíkur um þrjúleytið í dag. Sérsveitarmenn lögreglunnar voru mættir á staðinn auk fjögurra lögreglubíla og fjögurra mótorhjóla. Lögreglumenn vildu ekki ræða við fréttamann Vísis sem fór á staðinn.

Samkvæmt heimildum Vísis var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á svipuðum tíma að leita manns sem sást með eitthvað sem leit út fyrir að vera skotvopn við Listasafn Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum fyrr í dag. Ekki liggur ljóst fyrir hvort sú leit lögreglu tengist aðgerðunum við Grettisgötu.

Lögreglumenn fóru inn í að minnsta kosti eitt hús við við aðgerðir sínar en ekki liggur ljóst fyrir hvort einhver hafi verið handtekinn. Lögregla yfirgaf svæðið á fjórða tímanum eftir að hafa verið með fjölmennt lið lögreglu á svæðinu milli Grettisgötu og Njálsgötu.

Uppfært klukkan 17.10

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að ábending hafi borist lögreglu rétt eftir hádegi í dag.

„Ábendingin var tekin alvarlega og var viðbúnaður lögreglu í samræmi við það. Ekkert hefur komið fram sem rennir stoðum undir refisverða háttsemi,“ segir í tilkynningunni.

 

Lögreglumenn að störfum um þrjúleytið í dag.
Vegfarendur voru með símana á lofti til að taka myndir af því sem fram fór en lögreglan sást meina að minnsta kosti einum vegfaranda að taka upp myndband á síma sinn.

Ekki hefur náðst í lögreglu símleiðis við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru hvattir til að senda póst á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×