Erlent

Umfangsmiklar heræfingar Kínverja í S-Kínahafi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Loftmyndir sýna umfangsmiklar framkvæmdir Kínverja á sandrifum í S-Kínahafi.
Loftmyndir sýna umfangsmiklar framkvæmdir Kínverja á sandrifum í S-Kínahafi. Vísir/Getty
Reuters greinir frá því að stjórnvöld í Kína hafi tilkynnt í dag að kínverski herinn hefði haldið umfangsmiklar sjó- og lofthernaðaræfingar í Suður-Kínahafi. Er þetta liður í aðgerðum kínverskra stjórnvalda til að tileinka sér yfirráð yfir Suður-Kínahafi, nánast eins og það leggur sig.

Í tilkynningu á vefsíðu kínverska varnarmálaráðuneytinsins segir að yfir 100 skip, tugir flugvéla, upplýsingahernaðardeildir og kjarnorkuknúnir heraflar kínverska hersins hafi tekið þátt í æfingunum en nákvæm staðsetning var ekki gefin upp.

Kína gerir tilkall til yfirráða yfir stærstum hluta Suður-Kínahafsins sem talið er vera ríkt af náttúrulegum auðlindum auk þess sem að mikil umferð skipa er um hafið. Kínversk yfirvöld hafna alfarið kröfum Víetnam, Filippseyja, Brúnei, Malasíu og Taívan sem öll gera tilkall til síns hluta af hafinu.

Bandaríkin hafa hvatt deiluaðila til að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þessari deilu og hefur gefið út að Kyrrahafsfloti bandaríska hersins muni vernda skipaleiðir sem eru mikilvægar bandarískum viðskiptahagsmunum við Suðaustur Asíu og Mið-Austurlönd og liggja um Suður-Kínahaf.

Kínversk yfirvöld hafna afskiptum Bandaríkjanna af deilunni og hafa gripið til aðgerða nýlega, m.a. hafa þeir hafið umfangsmiklar framkvæmdir við endurheimt lands auk framkvæmda á sandrifum til þess að styrkja kröfur sínar um yfirráð yfir Suður-Kínahafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×