Erlent

Umfangsmikil leit að morðingjum lögreglumanns

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þyrlur og vopnaðir leitarmenn reyna nú að hafa upp á morðingjum lögreglumannsins.
Þyrlur og vopnaðir leitarmenn reyna nú að hafa upp á morðingjum lögreglumannsins. vísir/epa
Víðtæk leit stendur nú yfir að þremur mönnum sem grunaðir eru um að hafa orðið lögregluþjóni að bana í Illinois-fylki í Bandaríkjunum í dag. Skólum hefur verið lokað og fólki sagt að halda kyrru heima fyrir meðan aðgerðir lögreglunnar standa yfir.

Lögregluþjóninn, Joseph Gliniewicz, tilkynnti í talstöð sinni að hann hygðist kanna grunsamlegt athæfi mannanna þriggja sem staddir voru í Lake County, um 100 kílómetra norðan af borginni Chicago í Illinois-fylki.

Sambandið við Gliniewicz rofnaði skömmu síðar og lögreglumenn sem sendir voru á vettvang komu að líki Gliniwicz þar sem hann lá við strendur Fox-vatns.

Charles Joeseph Gliniewicz.Mynd/facebook
Umfangsmikil leit að mönnunum þremur stendur nú yfir en tveir þeirra eru sagðir hvítir á hörund en sá þriðji dökkur. Íbúum í Lake County hefur verið meinað að yfirgefa heimili sín og fjórum grunnskólum hefur verið lokað meðan aðgerðir lögreglunnar standa yfir.

Leitarmenn njóta liðsinnis hunda og þyrlur sveima yfir öllu svæðinu en öll önnur flugumferð hefur verið bönnuð.

Leitarsvæðið er skógi vaxið og sagt nokkuð illt yfirferðar en Fox-vatn hefur lengi verið vinsæll áningarstaður ferðamanna og þeirra Chicagobúa sem hafa viljað losnað undan erli stórborgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×