Erlent

Umdeilt lögreglumál strandar á einum meðlimi kviðdómsins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr réttarsalnum á dögunum.
Úr réttarsalnum á dögunum. VÍSIR/AP
Kviðdómurinn sem skipaður var í máli fyrrverandi lögreglumannsins Michael Slager mun ekki komast að sameiginlegri niðurstöðu. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því einn meðlimur kviðdómsins neiti að telja Slager sekan um að hafa brotið af sér í starfi þegar hann skaut hinn fimmtuga Walter Scott til bana í Suður Karólínu í fyrra.

Málið vakti mikla reiði í Bandaríkjunum í kjölfar myndbandsbirtingar þar sem sést að Slager skaut Scott er hann hljóp í burtu frá lögreglumanninum. Hann hafi því ekki ógnað Slager með neinum hætti þegar hann var myrtur.

Sjá einnig: Lögreglumaður ákærður fyrir morð

Myndbandið vakti ekki síst hörð viðbrögð því Walter Scott er svartur. Lögreglan í Bandaríkjunum hefur setið undir gagnrýni vegna fjölda mála sem hafa komið upp þar sem hvítir lögreglumenn skjóta svarta.

Lögregluþjónninn sagði að Scott hefði reynt að ná af sér byssunni, en vitni mótmælti því. Scott varð fyrir fimm af þeim átta skotum sem skotið var að honum á hlaupum. Lífgunartilraunir voru ekki reyndar.

Sjá einnig: Nýtt myndband sýnir aðdraganda að skotum lögreglumannsins

„Það er ljóst að kviðdómurinn mun ekki komast að sameiginlegri niðurstöðu,“ voru skilaboðin sem dómarinn fékk frá talsmanni kviðdómsins í gærkvöldi. Kviðdómurinn, sem skipaður er 12 einstaklingum og starfað hefur í um 5 vikur, mun koma aftur saman á mánudag. Alls hafa um 50 vitni gefið skýrslu í málinu.

Michael Slager á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi verði hann sakfelldur. Myndband af atvikinu umrædda má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×