Bíó og sjónvarp

Umdeildur Óskarsverðlaunahafi sakaður um kynferðislega áreitni gegn samstarfskonum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Casey Affleck með styttuna góðu.
Casey Affleck með styttuna góðu. vísir/getty
Leikarinn Casey Affleck hlaut á sunnudaginn Óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki karla fyrir frammistöðu sína í myndinni Manchester by the Sea eftir Kenneth Lonergan. Það er hins vegar langt frá því óumdeilt að Affleck skuli hafi hlotið náð fyrir augum Óskarsakademíunnar.

Þannig hafa fjölmiðlar bent á að leikkonan Brie Larson, sem veitti Affleck verðlaunin á sunnudag, klappaði ekki fyrir honum líkt og aðrir í salnum. Þá var hún ísköld þegar hún afhenti honum Golden Globe-verðlaunin í síðasta mánuði.

Ástæðan eru ásakanir sem tvær af samstarfskonum Affleck settu fram á hendur honum árið 2010 í kjölfar vinnu við myndina I‘m Still Here sem Affleck leikstýrði og skrifaði handritið að ásamt félaga sínum, leikaranum Joaquin Phoenix.

Þrátt fyrir að tæp sjö ár séu síðan að konurnar tvær, kvikmyndatökumaðurinn Magdalena Górka og framleiðandinn Amanda White, sökuðu Affleck um kynferðislega áreitni hafa fjölmiðlar vestanhafs rifjað ásakanirnar upp eftir að leikarinn tók við styttunni eftirsóttu á sunnudag.

Sagði Affleck hafa skipað öðrum karlmanni að sýna henni á sér typpið

Mest var fjallað um málið síðastliðið haust þegar kvikmyndagagnrýnendur- og unnendur um allan heim hófu að dásama frammistöðu Affleck í Manchester by the Sea og hann var sterklega orðaður við Óskarstilnefningu. Á þeim tíma sem Affleck á að hafa áreitt þær Górka og White var hann giftur Summer Phoenix, systur Joaquin Phoenix, en þau skildu fyrir um ári og höfðu þá verið gift í tíu ár.

Fjölmiðlarnir The Daily Beast, Mic, Elle, Mashable og New York Magazine fjölluðu meðal annars ítarlega um málið. Það má rekja aftur til ársins 2008 þegar White samþykkti að verða framleiðandi að ónefndri heimildarmynd sem Affleck hugðist gera en myndin fékk síðar heitið I‘m Still Here. White hafði unnið í um tíu ár með Affleck en sagði síðar að hann hefði ítrekað áreitt hana á meðan þau unnu að I‘m Still Here.

Á meðal þess sem White sakaði Affleck um var að hann hefði skipað öðrum karlkyns starfsmanni á setti myndarinnar að girða niður um sig og sýna framleiðandanum typpið á sér, jafnvel eftir að White baðst undan því að sjá það.

Þá sagði hún að Affleck talaði gjarnan um konur sem „kýr,“ hann hefði spurt hana hvort það væri ekki kominn tími til að hún yrði ólétt eftir að hann komst að því hvað hún væri gömul og hvatti hana og annan karlkyns starfsmann til að hafa kynmök og búa til barn.

Félagarnir Casey Affleck og Joaquin Phoenix á góðri stund.vísir/getty
Fóru fram á milljónir dollara í skaðabætur

Þá lýsti White því þegar Affleck reyndi að neyða hana til þess að deila með sér hótelherbergi og þegar hún neitaði hafi hann gripið í hana og reynt að hræða hana til hlýðni. Í kjölfarið fór Affleck að senda White smáskilaboð þar sem hann kallaði hana öllum illum nöfnum fyrir að hafa ekki viljað koma með honum inn á herbergi.

White lagði fram kæru á hendur Affleck þann 23. júlí árið 2010 fyrir kynferðislega áreitni fyrir Hæstarétti Los Angeles og krafðist hún tveggja milljóna dollara í skaðabætur. Viku síðar lagði Górka fram kæru og krafðist 2,5 milljóna dollara í bætur frá leikaranum.

Í kærunni segir að um leið og Górka hafi byrjað að vinna við myndina hafi Affleck verið með óviðeigandi athugasemdir í hennar garð. Hún sagði að Affleck og aðrir starfsmenn á setti hafi talað opinskátt um það fyrir framan hana að þeir vildu stunda kynlíf með henni.

Górka var eina konan sem vann við myndina á setti á þessum tíma og hún taldi sér trú um að hegðun leikstjórans yrði ekki verri en þetta. Hún ákvað því að halda áfram en í kærunni er því lýst þegar Affleck kom óumbeðinn upp í rúm til Górka þar sem kvikmyndateymið dvaldi í íbúð sem leikstjórinn og Joaquin Phoenix höfðu til umráða í New York í desember 2008.

Affleck var giftur Summer Phoenix á þeim tíma sem hann á að hafa áreitt konurnar tvær.vísir/getty
„Vegna þess að þú ert giftur og ert yfirmaðurinn minn“

„Hann hjúfraði sig upp að henni í rúminu og var aðeins klæddur í nærbuxur og stuttermabol. Hann hafði tekið utan um hana og var að kjassa á henni bakið, með andlitið nánast ofan í andlitinu hennar og angaði af áfengi,“ eins og segir í beinni tilvitnun í kæruna í umfjöllun The Daily Beast um málið.

Górka vissi ekki hvað Affleck hefði verið lengi upp í hjá henni svo hún sagðist ekki hafa haft hugmynd um hvort hann hefði snert hana í svefni eða ekki. Hún sagðist hafa verið í áfalli og verulega misboðið og skipað Affleck að fara úr rúminu. Hann hafi spurt hvers vegna og hún svaraði honum:

„Vegna þess að þú ert giftur og ert yfirmaðurinn minn.“

Górka sagði að leikstjórinn hefði þá spurt hvort hún væri alveg viss og þegar hún stóð fast á sínu á Affleck að hafa rokið reiður á dyr. Í kjölfarið sagði Górka upp starfi sínu við myndina og lét umboðsmann sinn vita af áreitni Affleck en White talaði við hana um mánuði síðar og hvatti hana til þess að koma aftur. Þær yrðu saman á setti og með tvær konur þar ætti að verða erfiðara fyrir leikstjórann að viðhafa sömu hegðun og áður.

Affleck var þó ekki hættur að því er fram kemur í kæru Górka þar sem hún varð „nánast daglega fyrir kynferðislegum athugasemdum og áreitni af hálfu starfsmanna myndarinnar og leikstjórans sjálfs.“

Affleck neitaði ásökunum staðfastlega á sínum tíma og hótaði að kæra þær á móti fyrir rangar sakargiftir en í október 2010 náðu hann og konurnar sáttum utan dómstóla.

Casey Affleck stendur hér á milli bróður síns Ben Affleck og besta vinar hans, Matt Damon.vísir/getty
Auðmjúkur og hógvær strákur frá Boston sem vill ekki verða frægur

Síðan hefur ekkert fengist uppgefið um það hvort Affleck greiddi konunum einhverjar upphæðir vegna málsins en þær voru þó að minnsta kosti „kreditaðar“ fyrir vinnuna sem þær unnu við I‘m Still Here, eitthvað sem hafði ekki verið gert áður.

Í umfjöllun New York Magazine um málið segir að þar sem sáttir náðust um málið á sínum tíma muni almenningur í raun aldrei fá að vita hvort að Affleck áreitti konurnar kynferðislega eða ekki:

„White og Górka voru kannski bara að segja hvað sem þær vildu um Affleck og tóku þannig áhættu með eigin frama og einkalíf. Ef þær voru að segja satt um Affleck og það sem hann gerði þeim er hann ekki sá sem hann segist vera: auðmjúkur og hógvær strákur frá Boston sem eldri bróðir hans, Ben, leit alltaf eftir en vill alls ekki verða frægur.“

Svona lýsti Affleck sér í viðtali í haust þegar hann var að kynna Manchester by the Sea og kapphlaupið um Óskarinn var hafið. Í grein New York Magazine segir að sú hegðun sem White og Górka lýsi sé ekki hegðun auðmjúks leikara sem vilji ekki verða frægur:

„Þetta er hegðun einhvers sem notar vald sitt og forréttindi til þess að taka það sem hann vill frá konum.“

Kvikmyndagerðarmaðurinn Nate Parker var ákærður fyrir nauðgun árið 1999.vísir/getty
Ekki það sama, Jón eða séra Jón?

Í umfjöllunum fjölmiðla um mál Affleck hefur það verið sett í samhengi við mál kvikmyndagerðarmannsins Nate Parker. Hann skaust upp á stjörnuhimininn á Sundance-kvikmyndahátíðinni í fyrra með mynd sinni The Birth of a Nation sem valin var besta dramamynd hátíðarinnar.

Parker, sem er svartur, er nýgræðingur í bransanum. Hann leikstýrði The Birth of a Nation, skrifaði handritið ásamt félaga sínum, Jean Celestin, og lék aðalhlutverkið. Fastlega var búist við því að myndin ætti eftir að sópa til sín Óskarstilnefningum og jafnvel vinna eitthvað á hátíðinni. Eftir að rifjað var upp í fjölmiðlum síðastliðið sumar að Parker og Celestin hefðu verið ákærðir að nauðga skólasystur sinni árið 1999 urðu vonir þeirra um Óskarsverðlaun í raun að engu.

Rétt er að halda því til haga að tvímenningarnir voru sýknaðir af ákærunni og mál þeirra er vissulega um margt ólíkt máli Affleck. Í tilfelli Parker og Celestin var um sakamál að ræða en í tilfelli Affleck höfðuðu konurnar einkamál gegn honum. Þá er glæpurinn sem þeir fyrrnefndu voru sakaðir um alvarlegri en ásakanirnar gegn Affleck.

Ýmsir hafa þó velt því fyrir sér hvers vegna ásakanirnar sem White og Górka settu fram á hendur Affleck hafi ekki haft meiri áhrif á feril hans en raun ber vitni, og að sama skapi hvers vegna ferill Parker í Hollywood sé að öllum líkindum búinn vegna nauðgunarmálsins.

Woody Allen er stórstjarna í Hollywood en hann hefur verið sakaður um að hafa misnotað stjúpdóttur sína kynferðislega.vísir/getty
Ekki fyrsti hvíti karlinn í Hollywood sem sakaður er um að brjóta gegn konum

Í grein Mic um málið er bent á að kynþáttur geti verið ein ástæðan; Affleck er hvítur en Parker svartur. Þá er sú staðreynd að ekkert nýtt hafi komið fram í máli Affleck nefnt en í fréttunum sem sagðar voru af ákærunni gegn Parker og Celestin síðasta sumar kom fram að konan sem þeir voru sakaðir um að nauðga framdi sjálfsmorð árið 2012.

 

Í umfjöllun Vox er svo bent á það að Affleck á að eldri bróður sinn Ben, sem hefur verið stórstjarna í Hollywood allt frá því að hann og æskuvinur hans Matt Damon unnu Óskarsverðlaunin árið 1998 fyrir handritið að myndinni Good Will Hunting. Hann er því mun betur tengdur innan Hollywood en Parker, hluti af „klíkunni“ ef svo má að orði komast, og það gæti mögulega haft áhrif.

Svo má nefna að Affleck er ekki fyrsti hvíti karlmaðurinn í Hollywood sem sakaður er um að hafa brotið gegn konum án þess að það hafi haft teljandi áhrif á feril þeirra eða orðið til þess að þeir hafi ekki hlotið náð fyrir augum Óskarsakademíunnar. Nægir þar að nefna leikstjórana Woody Allen og Roman Polanski og svo Mel Gibson sem einmitt var tilnefndur til Óskarsins í ár.

Um sjö ár eru síðan þáverandi eiginkona Gibson fór fram á að hann yrði dæmdur í nálgunarbann vegna ofbeldis sem hún sagði hann hafa beitt sig. Sakaði hún hann meðal annars um að hafa kýlt sig og þannig brotið í sér tönn. Gibson neitaði að hafa kýlt hana en viðurkenndi að hafa slegið hana utan undir einu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×