Erlent

Umdeildur hollenskur flokksformaður sekur um hatursorðræðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Geert Wilders.
Geert Wilders. Vísir/EPA
Umdeildur formaður Frelsisflokksins í Hollandi hefur verið dæmdur sekur um hatursorðræðu gagnvart Marokkómönnum. Maðurinn sem heitir Geert Wilders var þó ekki dæmdur til refsingar, en yfirdómari málsins sagðist telja að sakfelling væri nægileg refsing.

Hann bætti því við að enginn stjórnmálamaður væri hafinn yfir lögin.

Frelsisflokkurinn er mjög gegn múslimum og dómsmálið er vegna atviks árið 2014. Þá leiddi Wilders stuðningsmenn sína í hrópum og köllum um að þeir vildu færri Marokkómenn í Hollandi.

Sjálfur hefur Wilders sagt að réttarhöldin séu keyrða áfram af pólitískum ástæðum og sagði þau ógna málfrelsi landsins. Hann var ekki viðstaður uppkvaðninguna en hefur áður sagt að yrði hann dæmdur sekur myndi hann áfrýja.

Nú fyrir skömmu birti hann myndband þar sem hann fer yfir viðbrögð sín við dómnum. Þar segist hann ekki vera kynþáttahatari þar sem Marokkómenn séu ekki kynþáttur. Hann segir Holland vera veikt og að dómararnir hafi rangt fyrir sér. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Flokkur Wilders hefur vaxið ásmegin í skoðannakönnunum að undanförnu og mælist með lítinn meirihluta á landsvísu. Þingkosningar verða haldnar í Hollandi í mars.


Tengdar fréttir

Lýðskrumsflokkarnir fagna Trump

Evrópskir stjórnmálaflokkar sem hafa varað við innflytjendum og barist gegn alþjóðavæðingu líta á sigur Donalds Trump sem hvatningu til dáða og hlakka til framhaldsins.

Réttað yfir Wilders í lok mánaðar

Formanni Frelsisflokks Hollands, Geert Wilders, hefur verið gert að mæta fyrir dómstóla þann 31. október næstkomandi þar sem réttað verður yfir honum fyrir meinta hatursorðræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×