Lífið

Umdeild bók á svið

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Leikstjórinn Una Þorleifsdóttir segir verkið vera skáldskap og að hún nálgist það sem slíkan.
Leikstjórinn Una Þorleifsdóttir segir verkið vera skáldskap og að hún nálgist það sem slíkan. Vísir/Pjetur
„Við byrjum að æfa á mánudaginn,“ segir Una Þorleifsdóttir, leikstjóri verksins Konan við 1000°, sem byggt er á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar. „Verkið verður sett á svið í haust, nánar tiltekið í september,“ segir Una jafnframt um annað verkið sem hún leikstýrir í Þjóðleikhúsinu, en hún leikstýrði Harmsögu eftir Mikael Torfason á síðasta ári við góðan orðstír. Í verkinu koma til með að leika þau Guðrún Gísladóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson.

Bók Hallgríms var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2011, og til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012, en hún var nokkuð umdeild.

Bókin byggist að hluta á ævi Brynhildar Georgíu Björnsson, sonardóttur Sveins Björnssonar, sem var fyrsti forseti Íslands. Í bókinni heitir aðalsöguhetjan Herbjörg María Björnsson og Hallgrímur birtir í bókinni formála þar sem hann biður lesendur að blanda þessu tvennu ekki saman því bókin hans sé skáldskapur.

Í kjölfar útgáfu bókarinnar ritaði dóttir Brynhildar grein í Fréttablaðinu þar sem hún lýsti yfir óánægju með bókina og framkomu Hallgríms í garð fjölskyldu sinnar.

„Þetta er náttúrulega skáldskapur og það er þannig sem ég nálgast þetta, þó að sagan eigi samsvörun í sögu þessarar konu. Fyrir mér er þetta ekki tilraun til þess að segja sögu þessarar fjölskyldu, heldur fólks sem finnur sig í þessum aðstæðum,“ útskýrir Una og bætir við að hún hlakki mikið til samstarfsins við Hallgrím.

Hallgrímur tekur í sama streng og segist ekki hafa breytt áherslum vegna gagnrýninnar. „Maður breytir ekki bókum eftir á, leikgerð er meira spurning um val. Þetta snýst um á hvað maður leggur áherslu. Bókin er löng og mikil, og það þarf að stytta leiðir, færa kannski hluti til og stokka upp.“ Hann bætir við að hann hafi þegar skrifað nokkrar útgáfur af leikgerðinni. „Á mánudaginn byrjum við að lesa leikgerðina saman, hópurinn, og komum til með að móta hana áfram,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×