Enski boltinn

Umdeild ákvörðun bjargaði Everton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Everton náði ekki að hoppa upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þar sem að liðið gerði jafntefli við Crystal Palace, 1-1, á heimavelli sínum, Goodison Park.

Romelu Lukaku kom Everton yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 35. mínútu leiksins en fyrri háfleikur var fjörlegur þó svo að dauðafærin hefðu ekki verið mörg.

Crystal Palace sneri leiknum sér í vil í síðari hálfleik og skoraði Christian Benteke með góðum skalla eftir sendingu Joel Ward, hægri bakvarðar gestanna.

Stuttu síðar átti Ward aðra sendingu sem Damien Delaney, fyrirliði Palace, skallaði í netið en Jon Moss, dómari leiksins, dæmdi markið af eftir að aðstoðardómari hans gaf rangstöðu til kynna.

Delaney var hins vegar ekki rangstæður, heldur James McArthur sem stökk á eftir boltanum við markteig en náði ekki að koma við hann.

Crystal Palace sótti nokkuð eftir þetta en gaf svo eftir á síðustu mínútum leiksins. Heimamenn náðu ekki að færa sér það í nyt og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Everton er nú í þriðja sæti deildarinnar með fjórtán stig en hefur nú spilað tvo leiki í röð án sigurs eftir að hafa unnið fjóra í röð. Crystal Palace er í sjöunda sæti með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×