Skoðun

Umburðarlyndi, samkennd og gleði

Nichole Leigh Mosty skrifar
Samfélag í stöðugri þróun er samfélag þar sem fólk stendur saman og styður við hvert annað. Þar sem fólk fær að lifa með reisn á eigin forsendum og samkvæmt eigin viðmiðum. Það er samfélag þar sem samkennd, umburðarlyndi og gleði ríkir.

Eftir eitt ár í þjónustu fyrir Íslendinga sem Alþingiskona þarf ég verulega á því að halda að næra og endurhlaða mig inn á við. Það kannski kemur fólki á óvart að heyra að ég er að hluta til ekki sorgbitin yfir því að missa þingsætið. Mér finnst mjög erfitt og já, sakna gríðarlega tækifærisins til að þjóna samfélaginu og vinna að þeim mikilvægu málefnum sem ég brenn fyrir á Alþingi. Ég vil taka það skýrt fram en… 

Það sem ég er ekki sorgbitin yfir að missa af, er að hverfa úr sviðsljósinu og á bakvið tjöld mismununar. Ég mun ekki sakna þess að vera „kona“ í stjórnmálum, þar sem fólk innan stjórnmála, sem og utan þeirra, telur það vera þeirra hlutverk að dæma og segja mér til. Fólk sem hefur litla sem enga hugmynd um hver ég er, hvað ég hef gert, fyrir hvað ég stend eða hvað ég er fær um að gera. Ég mun ekki sakna hrútskýringa sem ég fékk, oftast frá karlmönnum. Ég þurfti að brýna mig, kyngja gagnrýni og búa til skráp. Það sem ég uppgötvaði var að skrápur er ekki verkfæri sem kemur til með að auka hæfni til að þjóna samfélaginu og alls ekki til að sýna öðrum umburðarlyndi, samkennd eða gleði. 

Mér finnst gagnrýni vera heilbrigð og mikilvæg. Áskoranir og samofin tækifæri sem felast í því að vinna með gagnrýni eru dýrmæt. Það er fátt sem nærir mig meira, og reyndar flestar konur sem ég hef starfað með í stjórnmálum, en að vinna með réttmæta gagnrýni, að vinna með gagnrýni í þeim tilgangi að leita lausna og tryggja að málamiðlun finnist. Með afhjúpun sem kemur fram í frásögnum og umræðum tengdum „Í skugga valdsins“ eru stór tækifæri til að stuðla að þróun í samfélaginu okkar, þar sem jafnrétti er í fyrsta sæti og kynferðislegri áreitni, valdníðslu og ofbeldi er útrýmt.

Hreyfingin „Í skugga valdsins“ mun setja raunveruleika kvenna í stjórnmálum í sviðsljósið, og væntanlega draga úr því að konur sem hafa kjark til að taka þátt í stjórnmálum séu dæmdar.

Ég vona að fólk sem telur það vera þeirra hlutverk að fordæma konur vegna klæðnaðar, aldurs, útlits, forsíðumyndar á Facebook eða í mínu tilfelli, uppruna og hreims, nýti tækifærið sem felst í þessum gjörningi til að meta konur að verðleikum.

Ég mun halda áfram að þjóna samfélaginu í pólitík hjá Bjartri framtíð, flokknum sem er óhræddur við að hafa konur í valdastöðum. Við vorum með hæsta hlutfall kvenkyns frambjóðenda í efstu fimm sætunum í kosningunum núna til Alþingis (63%). Ég mun nota tækifærið sem felst í því að vinna að innri störfum með okkar gildum, svo sem trausti, svigrúmi, jafnvægi, skilningi, hugrekki, ábyrgð, samkennd og hlýju. Ég mun leggja mig fram við að stuðla að þróun jafnréttis og sanngirni í samfélaginu með umburðarlyndi, samkennd og gleði að vopni.

Sjáumst hress í næstu kosningum.

Höfundur er formaður hverfisráðs Breiðholts og fyrrverandi þingkona Bjartar framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×