Skoðun

Umbúðaþjóðfélagið

Úrsúla Jünemann skrifar
Jörðin okkar er að drukkna í rusli. Sóun á hráefnum er ennþá miklu meiri en þarf að vera. Þegar vistsporin okkar Íslendinga eru skoðuð kemur í ljós að margar jarðir þyrfti til ef allir í heiminum myndu tileinka sér okkar lífsstíl.

Smám saman verður vitundarvakning um þetta og menn byrja að flokka ruslið sem er hægt að endurvinna. Þetta er auðvitað mjög jákvætt en meira þarf til:

Refuse – reduce – recycle. Það er: Neita sér um – minnka neysluna – endurvinna.

Efst stendur að geta neitað sér um hluti sem maður þarf ekki að eiga, það fer best með hráefnin og jörðina okkar. Þarf ég að kaupa nýja hluti þegar gamla dótið dugar? Þarf ég að kaupa einnota þegar ég get keypt margnota? Get ég valið eitthvað í einföldum og vistvænum umbúðum í staðinn fyrir eitthvað marginnpakkað?

Næst á skalanum er að minnka neysluna. Þarf ég að eiga svona marga hluti? Gerir þetta mig ánægðari með lífið og tilveruna? Get ég nýtt betur það sem ég fæ? Get ég til dæmis skipulagt mig betur þannig að ég þarf ekki að henda mat?

Að endurvinna er neðst á skalanum og gott að við gerum það sem mest. Við getum gefið hlutunum nýtt líf. Endurvinnanleg efni eru verðmæti sem eiga ekki að fara í urðun eða brennslu.

Sem kennari í grunnskóla blöskrar mér hversu hugsunarlaust margir foreldrar velja nesti handa börnunum sínum. Við erum að vísu að flokka rusl en mun betra væri að það kæmi ekki svona mikið rusl inn. Óteljandi plastdollur og litlar drykkjarfernur safnast í hverri viku, flest allt sett samviskusamlega í plastpoka þar að auki. Það væri svo einfalt mál að láta börnin koma í staðinn með margnota brúsa undir drykki og góðar samlokur og ávexti í nestisboxi. Það þarf bara aðeins að koma sér upp úr þægindagírnum, en það venst. Svona heimatilbúið nesti kostar töluvert minna. Auk þess er margt sem fólk kaupir í fernum og dollum ekki sérlega hollt, sykurblandað sull. Í sumum skólum er farið að banna einfaldlega slíkt nesti. Heimurinn er að drukkna í plasti og rusli en við gætum hjálpað til að stíga skref í rétta átt. Margt smátt gerir eitt stórt. Komandi kynslóðir munu þakka okkur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×