Lífið

Sögulegt tónleikahald inni í Langjökli

Guðrún Ansnes skrifar
Stemningin verður væntanlega ólýsanleg í þessum manngerða helli.
Stemningin verður væntanlega ólýsanleg í þessum manngerða helli. Vísir/Stefán
Um er að ræða fyrstu tónleikana sem haldnir eru undir jökli,“ segir Ósk Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice, um fyrirhugað tónleikahald undir jökli. Stendur gestum nú til boða að kaupa sér miða uppá sögulegan viðburð, Ice Cave,  í Langjökli, næst stærsta jökli í allri Evrópu.

Mun ferðalagið hefjast strax að loknum síðustu tónleikum laugardagskvöldsins, eða um korter fyrir miðnætti. „Í heildina er þetta sjö klukkustunda ferðalag, gestirnir hafa það huggulegt á leiðinni þar sem matur og drykkur verður í boði, og svo tekur við mögnuð upplifun,“ útskýrir Ósk.

Ósk segir aðstandendur hátíðarinnar frjóa í hugsun og að það sjáist vel í þessari klikkuðu hugmynd.fréttablaðið/Pjetur
„Tónleikarnir sjálfir taka um nítíu mínútur, og munu  plötusnúðarnir Totally Enormous Extinct Dinosaurs and Artwork spila í hellinum.“



Segir Ósk að gestir munu stútfylltir af fróðleik og öðru slíku um íslög hellisins, enda má lesa úr þeim mörg þúsund ára sögu aftur í tímann. „Hellirinn er manngerður og því stórmerkilegur staður fyrir tónleikahald. Þetta verður sannarlega sögulegur viðburður. Við munum svo fara uppá jökulinn í sérútbúnum bílum, þetta verður heljarinnar ævintýri,“ bendir Ósk á.



Þegar á staðinn er komið verður gestunum boðið upp á drykk til að njóta í hellinum, en þó verða drykkirnir takmarkaðir við tvo á mann. „Ástæðan fyrir því er einföld, við erum að huga að örygginu,“ bendir Ósk á og hún á ekki von á að það verði vandamál fyrir gestina. „Þarna erum við að skapa ógleymanlega upplifun fyrir fólk, sem aldrei hefur staðið til boða áður, svo auðvitað setjum við öryggið í algjöran forgrunn.“

Þótt tónleikarnir fari fram undir þessum næststærsta jökli Evrópu, sem tekur sér um 953 ferkílómetra pláss sé horft til flatarmálsins, komast aðeins sjötíu gestir með í ferðina og kostar miðinn 29.900 krónur. Aðspurð hvernig svona hugmyndir komist á flug svara Ósk: „Fólkið að baki hátíðarinnar er gríðarlega frjótt í hugsun og þegar það kemur saman fer allt á flug. Þetta er ein af þeim og eins klikkuð og hún hljómar þá fór teymið á fullt í samvinnu við Ice Cave, Reyka og Iceland Excursions,  í að láta þetta verða að veruleika." 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×