Innlent

Umboðsmaður barna: Hafið yfir skynsamlegan vafa að ómálga barn var beitt ofbeldi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Umboðsmaður barna gagnrýnir niðurstöðu ákæruvaldsins um að fella niður mál sem varðar ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskólanum 101. Í áliti sem embættið hefur sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara segir að umboðsmaður hafi áhyggjur af því að vinnubrögð lögreglunnar í málinu hafi ekki verið nægilega vönduð.

Myndband sýndi kennara slá barn

Málið komst í hámæli á síðasta ári en þá var greint frá því að starfsmenn á ungbarnaleikskólanum hefðu beitt ómálga börn harðræði. Ýmis gögn lágu því til stuðnings, meðal annars myndskeið þar sem starfsmaður sást slá barn á rassinn, auk þess sem þrjú vitni staðfestu að starfsmaðurinn hafi oft rasskellt börn í skólanum.

Foreldrar barnsins sem sást slegið á myndbandinu kærðu málið til lögreglu. Það var síðan fellt niður með vísan til þess að það teldist ekki líklegt til sakfellis. Sú ákvörðun var kærð til saksóknara sem staðfesti hana.

Umboðsmaður gagnrýnir lögreglu og saksóknara

Í álitinu gagnrýnir umboðsmaður harðlega þá niðurstöðu að sú háttsemi að slá barn á rass teljist ekki refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum.

„Í núgildandi ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga kemur skýrt fram að hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum,“ segir umboðsmaður í álitinu.

Ekki líkamleg refsing að slá barn

Umboðsmaður gerir sérstakar athugasemdir við það mat ríkissaksóknara að það teljist ekki brot á barnaverndarlögum að slá barn á rassinn. „Virðist ríkissaksóknari líta svo á að umrædd háttsemi falli ekki undir hugtakið „líkamleg refsing“ í skilningi 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.“

„Í umræddu máli er til staðar myndskeið þar sem starfsmaður leikskólans sést slá rass barns og sýna því harkalega og vanvirðandi framkomu. Starfsmaðurinn viðurkennir einnig að hafa „danglað“ í barnið vegna þess að það var óþekkt og neitaði að hætta,“ segir í álitinu. „Virðist það því hafið yfir skynsamlegan vafa að umræddur starfsmaður notaði ítrekað þá aðferð að slá á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga – sem telst að mati umboðsmanns barna ótvírætt líkamleg refsing í skilningi barnaverndarlaga.“

Hættuleg skilaboð í niðurstöðu ákæruvaldsins

Umboðsmaður segir ennfremur að hættuleg skilaboð séu send með niðurstöðu lögreglu og ríkissaksóknara. „Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir,“ segir umboðsmaður og bætir við: „Börn á leikskólum eru háð umönnun og vernd starfsfólks og sett undir yfirburðarstöðu þess. Ung börn hafa ekki getu til þess að segja frá ofbeldi eða tjá sig um þau áhrif sem það hefur á líðan þeirra.“


Tengdar fréttir

Sumarstarfsmenn tilkynntu um ofbeldi á leikskóla

Barnavernd Reykjavíkur rannsakar hvort starfsmenn leikskólans 101 í Reykjavík hafi beitt börn margvíslegu harðræði. Þetta kemur fram á ruv.is. þar segir að málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn á leikskólanum sýndu barnavernd myndbönd í morgun og tilkynntu málið formlega.

Leikskólamálið ekki á borði lögreglunnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fengið tilkynningu um meint ofbeldi á leikskólanum 101 á Bræðraborgarstíg inn á sitt borð. Málið er í könnun hjá Barnaverndarnefnd en þar fást þau svör að málið verði kannað til hlítar, svo verður málinu hugsanlega vísað áfram til lögreglu. Það er þó ekki víst að málið rati þá leið að lokum.

Verða sjálfir að finna lausnir

Foreldrar ungbarna á 101 leikskóla á Bræðraborgarstíg verða sjálfir að finna lausnir sem henta þeim varðandi dagvistun. Borgin mun þó leita allra leiða til að aðstoða foreldra í leit þeirra að dagvistunarúrræðum.

Ófremdarástand í dagvistun barna

Dagforeldrum fer fækkandi og segja dagmæður að ófremdarástand ríki í dagvistarmálum í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar þurfa að leita í önnur hverfi.

Máli 101 leikskóla vísað til lögreglu

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur óskað eftir lögreglurannsókn á því hvort starfsmenn ungbarnaleikskólans 101 Reykjavík hafi brotið gegn barnaverndarlögum.

Leikskóli 101 opnar ekki í dag

Leikskóli 101 var ekki opnaður á ný í morgun eins og stefnt hafði verið að. Leikskólastjóri segist hafa tekið ákvörðun í gær um að opna ekki skólann á ný á meðan rannsókn stendur yfir. Málið er á dagskrá borgarráðs í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×