Innlent

Umboðsmaður Alþingis segir fangelsismálastjóra hafa gerst brotlegan vegna ummæla um Kaupþingsmenn

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Þremenningarnir afplánuðu dóm sinn á Kvíabryggju.
Þremenningarnir afplánuðu dóm sinn á Kvíabryggju. Vísir/Þorbjörn Þórðarson/andri marinó
Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ummæli Páls Winkel, fangelsismálastjóra, um þá Magnús Guðmundsson, Ólaf Ólafsson og Sigurð Einarsson hafi varðað brot á lagareglum. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Magnús, Ólafur og Sigurður hlutu allir dóm vegna Al thani-málsins svokallaða og voru í kjölfarið vistaðir á Kvíabryggju. Kvörtun þeirra til umboðsmanns Alþingis gegn Páli snerist um ummæli hans í fjölmiðlum varðandi ýmislegt er tengdist fangavist þremenninganna á Kvíabryggju. 

Kvörtun Magnúsar, Ólafs og Sigurðar var fjórþætt en hún var send umboðsmanni á gamlársdag í fyrra.

Í fyrsta lagi hafði Páll látið þau orð falla í fjölmiðlum að þremenningarnir vildu fá áfenga drykki með matnum á Kvíabryggju. Í öðru lagi hefði tökulið á vegum leikstjórans Michaels Moore fengið að kvikmynda á Kvíabryggju og rætt þar við þá Magnús, Ólaf og Sigurð.

Í þriðja lagi kvörtuðu þremenningarnir yfir því að Páll hefði í föstudagsviðtali Fréttablaðsins í nóvember í fyrra ýjað að því að honum væri mútað af föngunum, bæði óbeint og beint. Í fjórða lagi tengdist kvörtunin ummælum Páls um reiðnámskeið á Kvíabryggju sem til stóð að þremenningarnir myndu sækja.

Umboðsmaður Alþingis skilaði ekki inn ályktun varðandi málið enda hefur fangelsismálastjóri þegar beðist afsökunar á framgöngu sinni. Þess í stað sendi hann sendi þeim Magnúsi, Ólafi og Sigurði svar við kvörtuninni og gerði innanríkisráðherra og Páli jafnframt grein fyrir niðurstöðu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×