Innlent

Umboðsmaður Alþingis óskar eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um samskipti hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar frétta DV um afskipti hennar af rannsókn Lekamálsins svokallaða.

„Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Skal umboðsmaður í því sambandi gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,“ segir í bréfi umboðsmannsins til innanríkisráðherra.

Beiðni umboðsmannsins byggir einnig á samtölum hans við lögreglustjórann og ríkissaksóknara og hefur hann farið fram á að innanríkisráðherra láti sér í té upplýsingar og tiltæk gögn um eftirfarandi:

*Hvort innanríkisráðherra hafi að eigin frumkvæði óskað eftir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kæmi til fundar/viðtals við ráðherra í ráðuneytinu þar sem þér rædduð við hann um lögreglurannsókn sem embætti hans vann að á sama tíma og beinist að meðferð tiltekinna trúnaðarupplýsinga sem voru til staðar í innanríkisráðuneytinu.



*Óskað er eftir að fram komi hvert var tilefni þessara funda/viðtala, hvenær þau fóru fram og að ráðherra lýsi hvað kom þar fram af hans hálfu í samtölum við lögreglustjórann um rannsóknina og starfshætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu af því tilefni. Þá er óskað eftir að tiltæk gögn um þessi samskipti verði send umboðsmanni.

*Með sama hætti er óskað eftir upplýsingum um símtöl sem innanríkisráðherra kann að hafa átt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann ræddi um áðurnefnda lögreglurannsókn. Óskað er eftir að fram komi hvenær samtölin fóru fram, hvert var tilefni þeirra og hvað kom þar fram af hálfu innanríkisráðherra um rannsóknina. Óskað er eftir að tiltæk gögn um þessi símtöl verði einnig send umboðsmanni.

Ráðherra hefur til 15 ágúst til að svara spurningum Umboðsmanns Alþingis.


Tengdar fréttir

Píratar vilja fund um lekamálið

Þingmaður Pírata hefur óskað eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti svara við því hvort ráðherra hafi haft óeðlileg afskipti af störfum lögreglunnar.

Lekamálið ljótur pólitiskur leikur að mati Hönnu Birnu

Hart var sótt að innanríkisráðherra á þinginu nú rétt í þessu vegna lekamálsins svokallaða. Hanna Birna Kristjánsdóttir ætlar að tjá sig um það síðar en gaf í skyn að það snérist um aðför að sér.

Ríkissaksóknari óskar eftir frekari gögnum um lekamálið

Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, hefur óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu vegna kæru lögmanns hælisleitenda um leka á trúnaðargögnum úr ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×