Erlent

Um þúsund látnir í átökum í Úkraínu frá samþykkt vopnahlés

Atli Ísleifsson skrifar
Um milljón neyðst til að flýja heimili sín frá því að átök brutust út í landinu í apríl.
Um milljón neyðst til að flýja heimili sín frá því að átök brutust út í landinu í apríl. Vísir/AFP
Að meðaltali hafa þrettán manns látist í átökum í austurhluta Úkraínu á hverjum degi frá því að samið var um vopnahlé milli stríðandi fylkinga þann 5. september síðastliðinn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Á þeim átta vikum sem liðnar eru frá gerð samkomulagsins hafa 957 manns verið drepnir, en að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa bæði úkraínski stjórnarherinn og sveitir aðskilnaðarsinna gerst sek um brot á vopnahléssamkomulaginu.

Í skýrslunni er sagt frá að algert stjórnleysi ríki í héröðunum Donetsk og Luhansk sem eru að stærstum hluta á valdi aðskilnaðarsinna sem eru á bandi Rússlandsstjórnar. Þá er einnig greint frá trúverðugum ásökunum um ýmiss konar brot framin af hersveitum Úkraínuhers.

Í frétt BBC segir að Rússar hafi verið sakaðir um að hafa ýtt undir óróann í landinu með því að koma hergögnum til aðskilnaðarsinna. Rússar hafa þó staðfastlega neitað slíkum ásökunum.

Arseny Yatseniuk, forsætisráðherra Úkraínu, sagði í dag að aðgerðir Vladimír Pútín Rússlandsforseta væru ógn við alla, heimsskipan og heimsfriðinn. Þá lýsti Dalia Grybauskaite, forseti Litháens, Rússlandi sem „hryðjuverkaríki“ í útvarpsviðtali.

Pútín segir hins vegar að „alda svokallaðra litabyltinga“ [svo sem í Úkraínu, Georgíu og Kigisistan] hafi haft „hörmulegar afleiðingar“ í för með sér. „Fyrir okkur er þetta bæði lærdómur og viðvörun. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að nokkuð slíkt gerist í Rússlandi,“ sagði Pútín á fundi með öryggisráði landsins.

Alls hafa 4.317 látist og um milljón neyðst til að flýja heimili sín frá því að átök brutust út í landinu í apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×