Erlent

Um sex þúsund alríkisföngum sleppt í Bandaríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
206 þúsund alríkisfangar afplána nú dóma, en þeir voru um 25 þúsund árið 1980.
206 þúsund alríkisfangar afplána nú dóma, en þeir voru um 25 þúsund árið 1980. Vísir/Getty
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hyggst sleppa um sex þúsund alríkisföngum úr fangelsum landsins um næstu mánaðarmót. Aldrei áður hefur svo mörgum föngum verið sleppt á sama tíma.

Washington Post greindi frá þessu í gær en með aðgerðinni er verið að bregðast við plássleysi í bandarískum fangelsum. Stór hluti þeirra sem verður sleppt eru fangar sem hafa hlotið þunga dóma vegna fíkniefnamála síðustu þrjá áratugina.

Föngunum verður sleppt dagana frá 30. október til 2. nóvember. Flestir fanganna verða fluttir í opin fangelsi eða stofufangelsi áður en þeim verður veitt reynslulausn.

Nefnd sem mótar refsistefnu í Bandaríkjunum (e. US Sentencing Commission) breytti viðmiðunum sínum varðandi fíkniefnabrot á síðasta ári. Breytingarnar voru gerðar afturvirkar og er áætlað að tugir þúsunda fanga gæti verið sleppt fyrr en áætlað var.

206 þúsund alríkisfangar afplána nú dóma sína, en þeir voru um 25 þúsund árið 1980. Í lok síðasta árs afplánuðu um 1,56 milljónir manna dóma í öllum fangelsum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×