Innlent

Um sex hundruð hafa hafið lyfjameðferð við Lifrarbólgu C

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnalæknir í umboði heilbrigðisráðherra.
Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnalæknir í umboði heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm
Í ársbyrjun 2016 hófst átak gegn lifrarbólgu C. Landspítala var falin framkvæmd verkefnisins en aðalsamstarfsaðili er sjúkrahúsið Vogur. Átakinu lýkur árið 2019.

Um sex hundruð einstaklingar hafa nú hafið lyfjameðferð sem er um 70-80% þeirra sem taldir eru smitaðir hér á landi. Á fyrsta starfsári átaksins hafa um 95% þeirra sem klára meðferðina læknast.

Lifrarbólga C er oft einkennalaus og talið er að allt að 20% sjúklinga hafi ekki fengið greiningu og viti ekki af smitinu.

Í tilkynningu frá Landspítalanum kemur fram að „á þessum tímamótum er mikilvægt að ná til allra þeirra sem hugsanlega eru smitaðir af lifrarbólgu C og bjóða þeim meðferð. Í þessari viku verður því gert átak í skimun fyrir lifrarbólgu C og dreifibréf send á öll heimili í landinu þar sem allir sem eru í aukinni áhættu að hafa smitast af lifrarbólgu C hvattir til að fara í greiningarpróf sem má fá á öllum heilsugæslustöðvum. Auk þess verður hægt að komast í greiningarpróf á vegum meðferðarátaksins án þess að panta tíma.“

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að einstaklingar sem eru í aukinni áhættu að hafa fengið lifrarbólgu C eru þeir sem hafa sprautað sig með fíkniefnum í æð, þeir sem hafa fengið blóðgjöf, storkuþætti eða ígrædd líffæri fyrir árið 1922, þeir sem smitaðir eru af HIV, þeir sem eiga maka sem er smitaður af sjúkdómnum og karlmenn sem hafa haft mök við aðra karlmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×