Skoðun

Um hagsmuni rekstraraðila

Arnþór Jónsson skrifar
Í Fréttablaðinu á mánudag var haft eftir Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu Rótarinnar, að meðferðarkerfið hér á landi væri þannig úr garði gert að SÁÁ hefði rekstrarhagsmuni af því að fá sem flesta sjúklinga lagða inn á Vog. Þetta er fráleit staðhæfing. Ritstjórn Fréttablaðsins hefur ekki leitað upplýsinga um málið hjá SÁÁ en ég óska eftir því að blaðið komi eftirfarandi athugasemdum frá SÁÁ á framfæri við lesendur sína.

Sjúkrarekstur SÁÁ er fjármagnaður með þjónustusamningum við íslenska ríkið og tekjum af þeim gjöldum sem sjúklingar greiða fyrir þjónustu SÁÁ. Það dugar þó ekki til því árum saman hefur verið mikill halli af þessum rekstri sem hefur verið greiddur upp af samtökunum með fjármunum sem félagsmenn og velunnarar samtakanna láta af hendi rakna. Halli þessi hefur fyrst og fremst orðið til á sjúkrahúsinu Vogi.

Til sjúkrastarfsemi SÁÁ telst sjúkrahúsið Vogur, meðferðarheimilin Vík og Staðarfell og göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri. Engin gjöld eru tekin af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahúsið Vog, en sjúklingar greiða gjöld á göngudeild og hluta húsnæðis- og fæðiskostnaðar á Vík og Staðarfelli.

Vaxandi hlutur sjúklingagjalda

Síðastliðin ár hafa tekjur af þjónustusamningi við ríkið nægt fyrir um 60% af kostnaði við sjúkrareksturinn. Þau gjöld sem sjúklingar á Vík, Staðarfelli og á göngudeildum greiða nema um 20% af kostnaði og hefur það hlutfall farið vaxandi síðustu ár.

Sjúkrastarfsemin er rekin samkvæmt heilbrigðislögum og rekstur hennar fellur undir endurskoðun Ríkisendurskoðunar og er hluti af ríkisreikningi.

Söfnunarfé greiðir 20%

Söfnunarfé samtakanna hefur borið uppi um 20% af af öllum sjúkrarekstri SÁÁ síðustu ár, auk þess sem söfnunarfé hefur verið nýtt til þess að greiða fyrir byggingaframkvæmdir samtakanna.

Þær eignir sem SÁÁ hefur byggt upp í fasteignum undir starfsemina hafa verið fjármagnaðar að öllu leyti með sjálfsaflafé samtakanna án þess að ríki og sveitarfélög hafi haft nokkurn kostnað af þeim framkvæmdum.

Samtökin hafa gert þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd ríkisins um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á sjúkrahúsinu Vogi, meðferðarstöðvunum Vík og Staðarfelli og á göngudeildunum í Reykjavík og á Akureyri.

Ríkið greiðir 1.530 innlagnir af 2.100

Í nýgerðum þjónustusamningi SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um sjúkrahúsið Vog kemur fram að SÍ greiðir árlega fyrir 1.530 innlagnir á Vog. Síðustu 15 ár hafa innlagnir á sjúkrahúsið Vog verið að meðaltali um 2.100 á hverju ári.

Sjálfsagt er hægt að segja ýmislegt um rekstrarhagsmuni SÁÁ. Það þarf samt ótrúlegar reikningskúnstir til að komast að þeirri niðurstöðu að SÁÁ hagnist fjárhagslega á því að hrúga sem flestum inn á sjúkrahúsið Vog, á sama tíma og samtökin greiða sjálf niður 100-200 m.kr. halla á sjúkrahúsinu á hverju ári.

Einu raunverulegu rekstrarhagsmunir SÁÁ eru að veita áfengis- og vímuefnasjúklingum sem besta meðferð svo þeir, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt fái að njóta hæfileika þeirra, sköpunarkrafta og óskertrar lífsorku.

Þarf ekkert sérstakt háskólapróf eða góðan vilja til að skilja að engin önnur dæmi eru til á Íslandi þar sem hið opinbera fær jafnmikið eða meira fyrir fjármuni sem það notar til kaupa á heilbrigðisþjónustu.

Almannaheillaþjónusta SÁÁ er sameign þjóðarinnar og árangurinn af starfinu er mikill og góður á hvaða mælikvarða sem er. Gamaldags og úreltum hugmyndum um að fíknsjúkdómur sé einhvers konar aumingjaskapur eða félagsleg hliðarverkun á öðrum vanda hefur fyrir löngu verið kastað. Fíknlækningar eru sérgrein í læknisfræði. SÁÁ treystir læknum sínum og öðru heilbrigðisstarfsfólki fyrir sjúklingunum. Gagnreynd þekking byggð á náttúruvísindum er leiðarljósið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×