Erlent

Um fimmtíu ræningjar komust yfir marga milljarða í Paragvæ

Atli Ísleifsson skrifar
Ránið stóð í um tvær klukkustundir.
Ránið stóð í um tvær klukkustundir. Vísir/AFP
Hópur um fimmtíu vopnaðra manna komust yfir jafnvirði mörg hundruð milljóna króna, mögulega nokkurra milljarða, í ofbeldisfullu ráni í suðausturhluta Paragvæ í gær. Hluti bæjarins Ciudad del Este er rústir einar eftir ránið.

Ræningjarnir réðust gegn lögreglustöð bæjarins og skrifstofum peningaflutningafyrirtækins Prosegur. Einn lögreglumaður lét lífið í ráninu sem stóð í rúma tvo tíma.

Í frétt Aftonbladet segir að fréttir bárust um fjölda sprenginga á meðan á ráninu stóð. „Sprengingarnar bergmáluðu í bænum eins og sprengjur í stríði,“ segir einn sjónarvotta.

Ræningjarnir flúðu frá bænum og er þeirra nú leitað af lögreglu bæði í Paragvæ og Brasilíu. Að sögn fjölmiðla féllu þrír þeirra í skotbardaga þeirra við lögreglu á landamærum Paragvæ og Brasilíu. Fjórir hafa verið handteknir.

Ciudad del Este er að finna nálægt Iguaçu-fossunum, einn af vinsælustu ferðamannastöðum Suður-Ameríku, þar sem landamæri Argentínu, Paragvæ og Brasilíu mætast.

Talið er að jafnvirði um 4,3 milljarða króna hafi verið í öryggishólfum Prosegur þegar ræningjarnir létu til skarar skríða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×