Innlent

Um 800 börn bíða enn eftir plássi á frístundaheimilum í Reykjavík

Atli Ísleifsson skrifar
Um 4.200 börn hafa verið skráð á frístundaheimili í borginni í ár.
Um 4.200 börn hafa verið skráð á frístundaheimili í borginni í ár. Vísir/Valli
Um átta hundruð börn bíða enn eftir plássi á frístundaheimilum í Reykjavík, en enn á eftir að ráða í um sextíu stöðugildi, eða rúmlega 120 starfsmenn í 50 prósent starf.

Í minnisblaði sem var lagt fram á fundi skóla- og frístundaráðs borgarinnar í gær kemur fram að á þriðjudag höfðu tæplega 4.200 börn verið skráð á frístundaheimili í borginni. Af þeim hafa 3.390 fengið pláss.

Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi á skrifstofu Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Vísi að ráðningar hafi gengið vel síðustu daga og að búast megi við að búið verði að ráða í öll störf upp úr miðjum september líkt og undanfarin ár.

Hlutfallslega eru flest börn á biðlista eftir plássi í Grafarvogi en fæst í miðborginni og Hlíðahverfi. Á sama tíma í fyrra voru níu hundruð börn á biðlista en þá voru umsóknir færri en nú, eða 3.589.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×