Erlent

Um 200 þúsund risaleðurblökur hafa tekið yfir ástralskan bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill fnykur er nú í bænum Charters Towers.
Mikill fnykur er nú í bænum Charters Towers.
Íbúar í ástralska bænum Charters Towers í Queensland segja að þeim sé nú haldið í gíslingu af gríðarlegum fjölda risaleðurblaka, eða svokallaðra flugrefa (Pteropus), sem hafa tekið yfir bæinn.

Áætlað er að leðurblökurnar sem hafast við í bænum séu á þriðja hundrað þúsund.

Flugrefur.Vísir/Getty
Yfirvöld hafa lokað almenningsgörðum, börnum hefur verið bannað að leika úti, rafmagnskostnaður íbúa hefur snarhækkað, ekki er lengur hægt að hengja þvott út til þerris og víða má finna úrgang og hræ leðurblaknanna á götum bæjarins. Þá er mikill fnykur yfir bænum.

Íbúar létu sig þó hafa það og héldu margir úr á götur um helgina til að mótmæla aðgerðaleysi yfirvalda í málinu. Snow Hearne, sem búið hefur í bænum í sjö ár, segir í samtali við ABC að stofninn á svæðinu hafi þrefaldast að stærð á síðustu mánuðum. „Ástandið er orðið það slæmt að ekki er hægt að fara út úr húsi vegna fýlunnar.“

Flugrefir eru stærsta tegund leðurblaka í heiminum. Að neðan má sjá myndband af ástandinu í bænum, en á vef 9news má sömuleiðis sjá fleiri myndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×