Erlent

Úkraína vill inn í NATO

Atli Ísleifsson skrifar
Rússlandsforseti segir að Úkraínumenn verði að taka upp viðræður við aðskilnaðarsinna.
Rússlandsforseti segir að Úkraínumenn verði að taka upp viðræður við aðskilnaðarsinna. Vísir/AFP
Framkvæmdastjóri NATO sakaði í dag Rússa um hrein og klár brot gegn fullveldi Úkraínu og að stunda hernaðaraðgerðir til stuðnings aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði að þrátt fyrir „innantómar neitanir“ þá væri alveg ljóst að Rússar hefðu farið yfir landamærin til Úkraínu með ólöglegum hætti.

Rasmussen sagði að NATO myndi virða hverja þá ákvörðun sem Úkraína tæki um öryggismál, en forsætisráðherra Úkraínu sagði fyrr í dag að landið stefndi að fullri aðild að NATO.

Rússnesk stjórnvöld hafa hafnað því að hafa sent hermenn og vopn til aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kenndi úkraínskum stjórnvöldum um ástandið í landinu og líkti umsátri úkraínska stjórnarhersins um borgirnar Donetsk og Luhansk, við umsátri nasista um Leníngrad í seinna stríði. Úkraínumenn verði að taka upp viðræður við aðskilnaðarsinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×