Erlent

Ugla sat á kvisti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alexander Van der Bellen og Norbert Hofer mættust í sjónvarpskappræðum um síðustu helgi. Fylgi þeirra mælist enn nærri hnífjafnt.
Alexander Van der Bellen og Norbert Hofer mættust í sjónvarpskappræðum um síðustu helgi. Fylgi þeirra mælist enn nærri hnífjafnt. Nordicphotos/AFP
Ekkert hefur breyst frá því að forsetakosningar skiluðu Alexander Van der Bellen naumum sigri yfir Norbert Hofer síðastliðið vor. Fylgi þeirra var nánast hnífjafnt og er það enn.

Van der Bellen sigraði með 50,3 prósentum en Hofer tapaði með 49,7 prósentum atkvæða.

Þær kosningar voru dæmdar ógildar og verða endurteknar sunnudaginn 4. desember. Fylgi þeirra beggja er enn að mælast rétt í kringum 50 prósentin. Hending ein virðist ætla að ráða því hvor verður ofan á.

Norbert Hofer er fullur eldmóðs, ákafur þjóðernissinni og hægrimaður, fulltrúi Frelsisflokksins sem óspart höfðar til ótta almennings við flóttafólk, útlendinga og alþjóðavæðingu almennt.

Alexander Van der Bellen er hins vegar hæglátur hagfræðingur og umhverfissinni sem nýtur stuðnings austurríska Græningjaflokksins, enda var hann leiðtogi flokksins í rúman áratug, frá 1997 til 2008.

Sigur Hofers yrði túlkaður sem vatn á myllu hreyfingar hægri þjóðernissinna sem mikill uppgangur hefur verið í víða í Evrópu undanfarin misseri, í beinu framhaldi af djúpri efnahagskreppu í álfunni og hernaðarhörmungum í Sýrlandi og víðar sem fólk hefur flúið unnvörpum. Og margir reynt að finna hæli í Evrópu.

Austurríski frelsisflokkurinn er partur af popúlistahreyfingu sem nærist á óttanum við alþjóðavæðingu og útlendinga.vísir/EPA
Hofer er partur af sömu hreyfingu og þau Marine le Pen í Frakklandi, Geert Wilders í Hollandi og Nigel Farage í Bretlandi, sem öll leggja í einhverjum skilningi ofuráherslu á að verja þjóðleg gildi gegn áhlaupi innflytjenda og alþjóðavæðingar.

Þessir flokkar hafa verið nefndir popúlistaflokkar, lýðskrumarar, enda snúist málflutningur þeirra fyrst og fremst um að ala á hræðslu almennings. Sá málflutningur sé allur á yfirborðinu en staðreyndir oft látnar liggja á milli hluta.

Sigur Donalds Trump í forsetakosningum Bandaríkjanna hefur orðið liðsmönnum þessara flokka hvatning til dáða. Þeir líta margir á hann sem ótvíræðan bandamann sinn.

Mörgum létti því að loknum kosningunum í maí þegar naumum sigri Græningjans Van der Bellens var lýst yfir. Sú undarlega staða var komin upp að fulltrúi Græningjahreyfingarinnar var orðinn fulltrúi hinna gamalreyndu stjórnmála gegn uppreisnaröflum úr röðum almúgans.

Jafnframt endurvakti ógilding þeirra kosninga ugg um að nú eigi Hofer aftur góða möguleika á sigri.

Í sjónvarpskappræðum um síðustu helgi tókust þeir á um þessi átakamál, sem tröllriðið hafa evrópskum stjórnmálum undanfarið.

Meðal annars sakaði Van der Bellen andstæðing sinn um að vilja koma Austurríki úr Evrópusambandinu, með sama hætti og Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Hofer sagði samt ekkert hæft í því.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×