Erlent

Tyrkir vilja vinna með Rússum gegn ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskar herþotur á flugi yfir Moskvu.
Rússneskar herþotur á flugi yfir Moskvu. Vísir/EPA
Uppfært 12:30

Utanríkisráðherra Tyrklands segir að yfirlýsing sín í gær hafi verið tekin úr samhengi. Hann hafi ekki boðið Rússum að nota flugstöðina. Þess í stað hafi hann eingöngu verið að tala um mögulegt samstarf ríkjanna í baráttunni gegn ISIS.

Upprunalegu fréttina má sjá hér að neðan.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa stungið upp á því að Rússar gætu notað Incirlik flugstöðina þar í landi til þess að gera árásir gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Stjórnvöld beggja landa hafa heitið því að bæta samband ríkjanna tveggja eftir að af Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, baðst í síðustu viku afsökunar á því að Tyrkir hefðu skotið rússneska herþotu niður í fyrra.

Talsmaður stjórnvalda í Kremlin segir að Rússar muni skoða tilboðið.

Aðrar þjóðir hafa einnig aðgang að Incirlik, en sú staðreynd að Tyrkir og Rússar eru í raun andstæðingar í Sýrlandi þykir sýna fram á að ólíklegt sé að Rússar muni nýta sér herstöðina. Þá er ekki víst að bandamenn Tyrklands í NATO muni sætta sig við að Rússar nýti Incirlik.

Nú nýta Bandaríkin, Þýskaland, Bretland, Sádi Arabía og Katar herstöðina þar.

Tyrkir eru svornir andstæðingar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, sem studdur er af Rússum og Íran.

„Við munum starfa með öllum þeim sem berjast gegn Daesh (annað nafn yfir ISIS). Við höfum gert það um nokkurt skeið og við opnuðum Incirlik flugstöðina fyrir þeim sem vilja hjálpa í baráttunni gegn Daesh,“ er haft eftir utanríkisráðherra Tyrklands á vef Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×