Erlent

Tyrkir undirbúnir fyrir mikinn fjölda flóttamanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Flóttamenn bíða við landamæri Tyrklands.
Flóttamenn bíða við landamæri Tyrklands. Vísir/AP
Sýrlenskum flóttamönnum hefur fjölgað mjög við landamæri Tyrklands að undanförnu. Innanríkisráðherra landsins segir að 130 þúsund Sýrlendingar hafi flúið undan sókn Íslamska ríkisins í Sýrlandi á undanförnum fjórum dögum.

Ráðherrann Numan Kurtulmus varar við því að fjöldinn gæti aukist til muna á næstu dögum, en AP fréttaveitan hefur eftir honum að Tyrkland sé undir það búið. Mögulegt sé að hundruðir þúsunda manna muni reyna að flýja til Tyrklands.

Vígamenn Íslamska ríkisins hófu sókn á fimmtudaginn, en nú eru þeir komnir svo gott sem að landamærum Tyrklands. Á þeim þremur og hálfa ári sem borgarastyrjöldin hefur geysað í Sýrlandi hafa rúmlega milljón flóttamenn farið yfir landamærin til Tyrklands.

„Þetta eru ekki náttúruhamfarir. Það sem við eigum við eru manngerðar hörmungar. Við vitum ekki hve mörg þorp IS hefur ráðist á, né hve margir í viðbót verði neyddir til að leita skjóls. Við bara vitum það ekki,“ segir Kurtulmus.

„Óstjórnanlegt afl hinumegin við landamærin ræðst gegn óbreyttum borgurum. Þetta er verra en náttúruhamfarir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×