Erlent

Tyrkir staðfesta samning ætlaðan til að binda enda á sex ára ósætti

Atli Ísleifsson skrifar
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, flytur ræðu á tyrkneska þinginu í Ankara.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, flytur ræðu á tyrkneska þinginu í Ankara. Vísir/AFP
Tyrkneska þingið hefur staðfest samning milli Tyrklands og Ísraels sem ætlað er að binda enda á sex ára ósætti milli ríkjanna.

Samskipti ríkjanna versnuðu til muna eftir að ísraelskir hermenn gerðu áhlaup á tyrkneskt skip sem var á leið til Gasastrandarinnar með hjálpargögn í maímánuði 2010. Tíu Tyrkir um borð féllu í áhlaupi ísraelska sjóhersins.

Ísraelsk stjórnvöld hafa þegar beðist afsökunar á málinu, en samkvæmt samningnum munu Ísraelar greiða tuttugu milljónir Bandaríkjadala, um 2,3 milljarða króna, til aðstandenda hinna föllnu og annarra sem særðust í áhlaupinu. Tyrkir munu á móti falla frá málaferlum vegna málsins.

Samningurinn var undirritaður þann 28. júní síðastliðinn, en hann felur einnig í sér að hafnbannið á Gasa, sem Tyrkir vildu að yrði aflétt, verði áfram í gildi.

Áfram verður þó mögulegt að koma hjálpargögnum til Gasa um ísraelskar hafnir, en Ísraelar segja hafnbannið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir vopnasmygl liðsmanna Hamas inn á palestínsku heimastjórnarsvæðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×