Erlent

Tyrkir og Ísraelar slíðra sverðin

Atli Ísleifsson skrifar
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Tyrklandi og Ísrael hafa ákveðið að slíðra sverðin og taka upp stjórnmálasamband á ný. Samskipti ríkjanna hafa verið slæm eftir að ísraelskir hermenn drápu tíu tyrkneska ríkisborgara um borð í skipi sem siglt var í átt til Gasastrandarinnar fyrir sex árum.

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir að samkomulag hafi náðst í gær sem feli í sér að ísraelska ríkið greiði 20 milljónir Bandaríkjadala, um 2,5 milljarð króna, í skaðabætur vegna málsins.

Samkvæmt samkomulaginu verður Tyrkjum jafnframt heimilt að koma hjálpargögnum til Gasa og taka þátt í uppbyggingu innviða á palestínsku heimastjórnarsvæðunum.

Í frétt BBC kemur fram að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segi að samkomulagið muni hjálpa til við að koma á stöðugleika í Miðausturlöndum.

Tyrkland var lengi helsti bandamaður Ísraela í heimshlutanum, en ríkin munu á næstu dögum skipa nýja sendiherra til að starfa í höfuðborgum hvors annars. Skrifað verður undir samninginn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×