Erlent

Tyrkir loka landamærum að Sýrlandi vegna flóttamannastraums

Vísir/AFP
Tyrknesk stjórnvöld hafa lokað stórum hluta landamæra sinna að Sýrlandi eftir að um hundrað þúsund kúrdískir flóttamenn streymdu þar yfir um helgina.

Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda sem vildu sýna flóttafólkinu samstöðu en fólkið flýr nú árásir öfgamannanna í Hinu íslamska ríki. Flestir flóttamannanna eru frá bænum Kobane sem sagður er við það að falla í hendur vígamannanna en hann er að mestu byggður Kúrdum.

Tyrkir hafa tekið við um 900 þúsund flóttamönnum frá því uppreisnin gegn al Assad forseta Sýrlands hófst en nú segjast þeir ekki ráða við meiri fjölda. Það bætir svo á ringulreiðina við landamærin að PKK, flokkur Kúrda í Tyrklandi, hvetur nú alla Kúrda til þess að fara yfir landamærin til Sýrlands, til þess að berjast þar við vígasveitir ISIS. Í gegnum árin hafa Tyrkir og Kúrdar borist á banaspjót og er PKK flokkurinn til að mynda bannaður í Tyrklandi.

Óttast er að óöldin í Sýrlandi og ofsóknir ISIS gegn Kúrdum þar muni virka sem olía á eldinn í deilum Kúrda og Tyrkja þannig að sá viðkvæmi friður sem verið hefur síðustu árin á milli Kúrda og Tyrkja í Tyrklandi sé nú brátt úti.

Sókn Isis að bænum Kobane er sögð hröð, og í gærkvöldi voru vígamennirnir aðeins í um tíu kílómetra fjarlægð. Þeir eru sagðir vel vopnum búnir og hafa meðal annars beitt skriðdrekum í sókn sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×