Innlent

Týndu börnin: Leitarbeiðnum fjölgar

Ásgeir Erlendsson skrifar
Hátt í 170 leitarbeiðnir hafa borist lögreglu vegna týndra barna á árinu. Þetta eru fleiri mál en á sama tíma í fyrra. Alls eru 78 börn á bak við þessar beiðnir. Vonir eru bundnar við að dróni sem lögregla fékk nýlega að gjöf flýti fyrir störfum lögreglu í leitum sem þessum.

Guðmundur Fylkison, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni hefur í rúm tvö ár leitað að týndum börnum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni Guðmundar var upphaflega til eins árs. 167 leitarbeiðnir hafa borist það sem af er ári og er um að ræða 78 ungmenni sem hafa týnst. 40 stúlkur og 38 piltar. Þar af leitaði Guðmundur í fyrsta sinn að 48 þessara barna.

„Fyrstu átta mánuðina voru við um 20 börnum minna en á sama í fyrra en síðan hefur heldur hallað á verri veginn síðan í ágúst og við erum komin fram úr tölum miðað við sama tíma og í fyrra. “

Hann segir stærsta muninn á milli ára vera fjölda þeirra sem leita þarf að fjórum sinnum eða oftar en í fyrra voru ungmennin 22 en í ár 9.

„Núna eru að koma inn eldri krakkar sem eru að fara mjög hratt í mjög þunga neyslu, mikla neyslu. Það er meginhlutverkið í þessu að þau séu ekki að deyja einhversstaðar af því það er enginn að leita að þeim. “

Nýlega áskotnaðist lögreglunni dróni sem er gjöf olnbogabarna sem eru félagasamtök foreldra barna sem stinga af og er drónanum ætlað að auðvelda Guðmundi leitina að týndu börnunum.

Nánar var rætt við Guðmund Fylkisson í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×