Innlent

Twitter tíu ára: „Skemmtilegasti samfélagsmiðillinn”

Birta Björnsdóttir skrifar
Samskiptamiðillinn Twitter er tíu ára um þessar mundir en á hverri sekúntu fara um 6000 tíst á netið. Twitter er í sókn hér á landi og hefur meðal annars áhrif á sjónvarpsáhorf landsmanna. Fyrsta tístið lét ekki mikið yfir sér, en þar tilkynnti Jack Dorsey, einn stofnenda Twitter og núverandi forstjóri fyrirtækisins, einfaldlega að hann væri að koma sér upp Twitter.

Þetta var í mars árið 2006. Nafnið Twitter varð fyrir valinu því það þýðir á ensku bæði tíst í fugli en einnig stuttar kviður af ómerkilegum upplýsingum. Það þótti Dorsey og félögum viðeigandi.

Hugmynd þeirra stofnenda var í grunninn einföld, að koma á fót miðli þar sem allir geta átt samskipti fyrir allra augum. Eina reglan er að skoðanaskiptin mega ekki telja meira en 140 stafabil.

„Maður þarf að vera hnitmiðaður. Það er ekki hægt að vera að rausa mikið um eitthvað. Nema kannski ef maður er Kanye West,” segir fjöllistakonana Sunna Ben, sem hefur verið virkur Twitter-notandi undanfarin ár.

„Við hin þurfum að vera hnitmiðuð og einbeitt og segja það sem við viljum skýrt í fáum orðum sem er skemmtileg áskorun."

Í dag eru 320 milljónir manna skráðir á samskiptamiðilinn og um 6000 tíst fara út á netið á hverri sekúntu.

„Þetta er rosalega skemmtilegur samskiptamáti og að mínu mati skemmtilegasti samskiptamiðillinn," segir Sunna og segist aðspurð hafa kynnst fjölda fólks í gegnum Twitter. „Ég er meira að segja í saumaklúbbi sem varð til á Twitter."

Besti vinur línulegrar dagskrár

Chris nokkur Messina bar undir félaga sína á Twitter árið 2007 hvort það væri kannski hugmynd að notast við myllumerkið til að merkja umræðuna hverju sinni.

Sú hugmynd var sannarlega samþykkt og síðan þá hafa ófá orð fest sig rækilega í sessi hér á landi með myllumerkið fyrir framan. Þau eru ekki síst notuð þegar sjónvarpsáhorf er annars vegar.

„Línuleg dagskrá og Twitter eru vinir, það er bara svoleiðis. Ég held að mikið af sjónvarpsefninu sem hefur verið vinsælt á Twitter dragi fólk að sjónvarpinu sem hefði ekki annars horft. Ætli þetta hafi ekki byrjað með söngvakeppninni. Þetta er svolítið skrýtin þróun að samskiptamiðill eins og Twitter taki eins gamaldags hlut og línulega dagskrá og giftist henni. Það er bara mjög skemmtilegt," segir Pétur Jónsson, tónlistarframleiðandi, sem hefur notað Twitter mikið allt frá árinu 2008.

„Það er rosalega erfitt að spá fyrir um hvernig þetta eigi eftir að þróast. Við höfum eiginlega bara ekki hugmynd um það. Þetta gerist svolítið organískt. Svo eru breytingar framundan hjá fyrirtækinu. Þeir eru ekki að ná inn nógum tekjum og því er líklegt að auglýsingamagn verði aukið á síðunni," segir Pétur.

„Enn sem komið er er þetta skemmtilega ólíkt öðrum samfélagsmiðlum. Þetta stutta form er skemmtilegt. Að búa til 140 karaktera tíst er erfitt en þegar það tekst vel er það þakklátt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×