Skoðun

Tvöföldum framlög til jafnréttismála

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir og Steinunn Ýr Einarsdóttir skrifar
Jafnrétti kynjanna er grundvallar mannréttindamál og það er líka efnahagsmál. Rannsóknir hafa sýnt að með því að bæta stöðu kvenna aukum við hagvöxt og efnahagslegan stöðugleika. Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna er ekki bara gott fyrir samfélagið heldur er það forsenda þess að konur geti staðið jafnfætis körlum og séu þeim ekki háðar um lífsviðurværi sitt og barna sinna. Atvinnuþátttaka kvenna hefur alltaf verið mikil á Íslandi, hún er álitin styrkleiki vinnumarkaðarins og hefur jákvæð áhrif á landsframleiðslu. Því sætir furðu hversu seinlega okkur gengur að útrýma launamun kynjanna.

Samfylkingin hefur um árabil verið leiðandi í að útrýma launamun kynjanna. Síðasta ríkisstjórn Samfylkingarinnar kom meðal annars á jafnlaunastaðli, setti lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða og jafnaði hlut kynjanna í ríkisstjórn og æðstu embættum ríkisins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur minnkaði jafnframt launamun kynjanna talsvert, en verkinu er hvergi nærri lokið.

Frá árinu 1961 hefur verið staðfest með lögum að óheimilt sé að mismuna í launum út frá kynferði. Ný jafnréttislög frá árinu 2008 kveða skýrt á um að launaleynd í ráðningarsamningum sé ekki skuldbindandi og að fólki sé í sjálfsvald sett hvort það skýri frá launakjörum sínum. Þrátt fyrir það eru mjög fá mál vegna launamismununar kærð.

Lög gagnast okkur þó ekki nema haft sé eftirlit með að þeim sé framfylgt og er Jafnréttisstofu ætlað að sinna því eftirlitshlutverki. Jafnréttisstofa fær framlög til jafnréttismála. Í núverandi fjárlögum eru áætlaðar 102,8 milljónir til Jafnréttisstofu og 21,5 milljónir í önnur framlög. Það er ljóst að fjármunirnir duga ekki fyrir því víðtæka hlutverki sem Jafnréttisstofu er ætlað og því viljum við í Samfylkingunni tvöfalda þessi framlög hið minnsta. Ábyrgðin liggur nefnilega hjá þeim sem setja leikreglurnar.

Nú eru 55 ár síðan það var staðfest með lögum að óheimilt væri að mismuna körlum og konum í launum. Við eigum öll að taka þá grundvallar­afstöðu að borga konum og körlum sömu laun fyrir sömu störf. Skilaboð kvennafrídagsins árið 1975 eiga enn fullt erindi við okkur öll. Tryggjum konum fjárhagslegt jafnrétti. Árið er 2016. Þetta er ekkert flókið. Það er bara að gera það.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×