Skoðun

Tvöföld málsmeðferð/refsing

Vala Valtýsdóttir skrifar
Nú nýverið komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirri niður­stöðu að ís­lenska ríkið hefði brotið á mann­rétt­ind­um tveggja einstaklinga þar sem meðferð skattalagabrota þeirra bryti gegn banni við end­ur­tek­inni málsmeðferð. Fengu þeir bætur vegna ófjárhagslegs tjóns, 5.000 evrur hvor um sig.

Í niðurstöðu dómsins segir að þar sem einstaklingarnir hafi ekki greitt dæmda sekt þá hafi þeir ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjón. Hins vegar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að bæta þyrfti þeim ófjárhagslegt tjón/miskabætur að fjárhæð 5.000 evrur vegna þess óréttlætis og gremju sem þeir hljóta að hafa fundið fyrir.

Af lestri dómsins þykir ljóst að fyrst og fremst er dómstóllinn að hnýta í hversu langan tíma málsmeðferðin tók. Þannig liggur fyrir að rannsókn á skattskilum annars einstaklingsins hófst 17. nóvember 2003 og í raun lauk þeirri málsmeðferð með dómi Hæstaréttar 7. febrúar 2013. Málsmeðferð skattamálsins tók því samtals um níu ár og þrjá mánuði.

Skattrannsóknarstjóri rannsakaði skattamálið í byrjun og var álagning skattyfirvalda byggð á þeirri rannsókn sem lauk með skýrslu 27. október 2004. Í framhaldi af því, eða 12. nóvember 2004, sendi skattrannsóknarstjóri skýrslu sína til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til opinberrar meðferðar þar sem um veruleg skattsvik væri að ræða.

Í ágúst 2006 var voru einstaklingarnir fyrst boðaðir í skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra. Þannig liðu um tvö ár frá því málinu lauk hjá skattyfirvöldum þar til ríkislögreglustjóri hóf seinni rannsóknina á sama málinu. Það var síðan ekki fyrr en 18. desem­ber 2008 sem gefnar voru út ákærur á hendur þeim fyrir veruleg skattalagabrot. Þann 9. desember 2011 dæmdi héraðsómur einstaklingana fyrir veruleg skattabrot sem Hæstiréttur staðfesti síðan að mestu leyti 7. febrúar 2013. Í dómi Hæstaréttar var tekið tillit til þess hversu langan tíma málið tók og auk þess álags í álagningarmáli hjá skattyfirvöldum.

Af lestri dóms Mannréttindadómstólsins verður ekki annað skilið en að það sé fyrst og fremst fundið að því að málið dróst úr hömlu vegna tvöfaldrar rannsóknar, þ.e. fyrst hjá skattrannsóknarstjóra og síðan hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þar sem einstaklingarnir höfðu ekki greitt þær sektir sem Hæstiréttur hafði úrskurðað um þá hefðu þeir ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Vegna þessa var ekki úrskurðað um hvort íslensk lög brytu í bága við banni um tvöfalda refsingu. Það er miður að ekki hafi fengist skýr niðurstaða um hvort álag hjá skattyfirvöldum valdi því að dómstólar geti ekki lagt á sektir vegna alvarlegra skattalagabrota, vegna banns við tvöfaldri refsingu, og verðum við því enn að bíða dóms um það.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Sjá meira


×