Innlent

Tvöfalt fleiri vinnuslys á Landspítala en í álverunum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mikið hefur verið fjallað um álag á Landspítala sem kemur til vegna plássleysis með tilheyrandi gangainnlögnum og skorti á starfsfólki, til að mynda hjúkrunarfræðingum.

Landlæknir hefur sagt í fréttum síðustu daga að hann hafi endurtekið gert athugasemdir vegna þessara mála síðasta árið. Aðrar eftirlitsstofnanir hafa einnig gert athugasemdir.

Vinnueftirlitið hefur þurft að gefa Landspítala fyrirmæli vegna vinnutíma starfsfólks, rakaskemmda í húsnæði og vegna hávaða.

Tilkynnt vinnuslys á Landspítala voru 38 á síðasta ári og þar af tíu alvarleg, það er beinbrot eða sambærilegt slys.

Til samanburðar urðu 18 slys í álverum á landinu á síðasta ári. Þar af fjögur alvarleg slys.

Að sögn yfirlæknis vinnueftirlitsins eru vandamál vegna vinnutíma starfsmanna og fjöldi vinnuslysa skýrt merki um óhóflegt álag á spítalanum.

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins, segir stöðuna á Landspítalanum almennt góða og gott samstarf sé við starfsfólk spítalans.

„En vandinn sem við horfum fram á, sem er erfiðara að eiga við, eru gangainnlagnir og of margir sjúklingar miðað við það sem deildir bera,“ segir hann og bendir á að gangainnlagnir tefji rýmingu ef eldur komi upp og hamli aðkomu slökkviliðs. Gerðar hafa verið athugasemdir en erfitt hefur verið að fylgja þeim eftir með þvingunaraðgerðum.

„Lögin eru skýr. Við getum lokað svona deild. En raunveruleikinn er þannig að við verðum að virða önnur sjónarmið sem hefur velferð fólks í fyrirrúmi. Þetta eru úrræði sem duga á aðrar stofnanir en eiga ekki við þessi tilvik,” segir Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×