Viðskipti innlent

Tvöfalt fleiri ferðamenn á hvert starf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ferðamönnum hefur fjölgað um 225 prósent frá árinu 2010. Hér má sjá ferðamenn við Dynjanda á dögunum.
Ferðamönnum hefur fjölgað um 225 prósent frá árinu 2010. Hér má sjá ferðamenn við Dynjanda á dögunum. vísir/pjetur
Fjöldi ferðamanna á hvert starf í ferðaþjónustu hefur tvöfaldast á síðastliðnum fimm árum. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem kom út í dag.

11 erlendir ferðamenn komu á fyrstu 5 mánuðum ársins fyrir hvert starf í ferðaþjónustu árið 2010 en á þessu ári voru ferðamennirnir orðnir rúmlega tvöfalt fleiri eða 22,7. Er það til marks um mikla framleiðniaukningu hjá starfandi fólki í ferðaþjónustu á þessu tímabili.

Á sama tíma hefur störfum í ferðaþjónustu fjölgað um 60 prósent, störfin voru 10.500 árið 2010 en eru nú um 16.700. Aukningin á fjölda erlendra ferðamanna er þó töluvert meiri eða 225 prósent á þessu tímabili.

Hlutfallslega hefur fjöldi ferðamanna á hvert starf verið að aukast hraðar utan háannar og því hefur framleiðnivöxturinn verið meiri þar. Veruleg árstíðarsveifla  sé þó enn í komum ferðamanna yfir árið þrátt fyrir að hún hafi verið á undanhaldi síðustu ár.

mynd/Hagsjá
Í Hagsjá segir að á lágönn séu ferðamenn tiltölulega fáir á hvert starf en fleiri yfir háönnina. Á síðasta ári komu fæstir ferðamenn á hvert starf í janúar og desember eða um 3,3 í hvoru tilfelli fyrir sig. Yfir háönnina komu um 7,7 ferðamenn á hvert starf í ágúst.

Sé litið á tölur Hagstofunnar um meðalfjölda starfa yfir árið eftir flokkum ferðaþjónustu sést að stærsti hlutinn liggur í veitingasölu- og þjónustu en þar voru um 7.100 stöðugildi á síðasta ári. Næststærsti hlutinn liggur í rekstri gististaða um 4.000 manns.

Fjölgunin milli 2010 og 2014 hefur verið hlutfallslega mest í flokknum „ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og bókunarþjónusta“ eða 82 prósent en einnig hefur orðið mikil fjölgun í rekstri gististaða eða 74 prósent. Fjölgunin hefur verið töluvert minni í farþegaflutningum með flugi (26 prósent) og veitingasölu- og þjónustu (28 prósent). 

„Sé litið til undirgreina þarf ekki að koma svo mikið á óvart að þær greinar sem standa undir stærstum hluta af heildaraukningu starfa milli 2010 og 2014 eru einmitt „ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og bókunarþjónusta“ annars vegar og rekstur gististaða hins vegar,“ segir í Hagsjá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×