Erlent

Tvöfaldur ríkisborgararéttur nú viðurkenndur í Danmörku

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ráðhúsið í Kaupmannahöfn.
Ráðhúsið í Kaupmannahöfn.
Í dag taka gildi í Danmörku lög sem fela í sér að tvöfaldur ríkisborgararéttur er viðurkenndur í Danmörku. Því geta nú Íslendingar sem búsettir eru í Danmörku og börn þeirra sótt um og öðlast danskan ríkisborgararétt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn vekur sérstaka athygli á þessu á Facebook- síðu sinni í dag.

„Jafnframt munu Íslendingar, sem hafa afsalað sér íslenskum ríkisborgararétti til að öðlast danskan, geta sótt um endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar án þess að missa þann danska. Þetta er þó háð ákveðnum skilyrðum sem fá má upplýsingar um hjá Útlendingstofnun,“ skrifar sendiráðið.

Íslensk lög hafa frá árinu 2003 heimilað tvöfaldan ríkisborgararétt en að sjálfsögðu fellur þó íslenski ríkisborgararétturinn niður ef lögin í nýja landinu heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt.

Útlendingastofnun segir ekki mikið hafa verið um að fólk hafi skipt um ríkisborgararétt en að nú hafi það möguleika á að endurvekja réttinn hafi það afsalað sér honum. En með ríkisborgarétti fást ýmis konar mikilvæg réttindi sem eru ólík milli landa.

22 ára reglan gildir enn

„Hafa ber í huga að svokölluð 22-ára-regla mun gilda áfram. Í henni felst að íslenskir ríkisborgarar með fleiri en einn ríkisborgararétt, sem fæddir eru erlendis og hafa aldrei átt lögheimili á Íslandi, missa íslenskan ríkisborgararétt þegar þeir verða 22 ára gamlir. Þetta gildir þó ekki ef þeir senda Útlendingastofnun, áður en þeir ná 22 ára aldri, tilkynningu um að þeir óski eftir því að vera áfram íslenskir ríkisborgarar.

Upplýsingar um danskar reglur um öðlun dansks ríkisborgararéttar, sem og umsóknareyðublað, má nálgast á heimasíðu danska dómsmálaráðuneytisins www.jm.dk og á upplýsingasíðu danskra stjórnvalda www.borger.dk. Einnig hefur Hallo Norden uppfært upplýsingar sínar um öðlun dansks ríkisborgarréttar og er sá texti aðgengilegur bæði á íslensku og dönsku á heimasíðu Hallo Norden.

Útlendingastofnun svarar fyrirspurnum um íslenskan ríkisborgararétt og má t.d. senda henni slíkar fyrirspurnir á netfangið utl@utl.is. Heimasíða stofnunarinnar er www.utl.is og síminn þar er 00354 444 0900,“ segir á síðu íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn.

Sendiráðið vekur athygli á því að í dag, 1. september, taka gildi dönsk lög sem fela í sér að tvöfaldur ríkisborgararé...

Posted by Islands Ambassade i København, DK on Tuesday, September 1, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×