Innlent

Tvö tilfelli riðuveiki sögð hrein tilviljun

svavar hávarðsson skrifar
Tilraunir til að útrýma riðuveiki á Íslandi hafa kostað ríkið stórfé og valdið fjölda manns miklu hugarangri.
Tilraunir til að útrýma riðuveiki á Íslandi hafa kostað ríkið stórfé og valdið fjölda manns miklu hugarangri. fréttablaðið/valli
Ekkert annað en tilviljun ræður því að tvö tilfelli af riðuveiki hafa komið upp á stuttum tíma – annað á búi í Skagafirði og hitt á bæ á Norðvesturlandi. Þetta eru fyrstu tilfelli hefðbundinnar riðu sem greinist á landinu frá árinu 2010.

Auður L. Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir aðspurð að langt sé á milli þeirra býla sem um ræðir og engin tengsl þar á milli. Tilvikin séu þess utan ólík.

Auður L. Arnþórsdóttir
Hugsanlegar smitleiðir geta verið margar. Stutt er síðan riðu varð vart í Skagafirði, og þar sem féð gengur saman á afrétti er erfitt að segja til um hvenær smitið hefur orðið. „Það getur verið langt síðan – fyrir mörgum árum. Það er mjög erfitt að rekja hvaðan smitið kemur og þess vegna erfitt að eiga við þetta,“ segir Auður en á Íslandi eru 26 fjárhólf. Í Skagahólfi hefur riðuveiki komið upp á átta búum á undanförnum 15 árum en í Valagerði hefur veikin ekki greinst áður. Aðeins á fjórum svæðum hefur riða, og aðrir búfjársjúkdómar í sauðfé, aldrei greinst og eiga þau það sameiginlegt að vera afskekkt. Aðeins þaðan er flutningur líflamba leyfður á milli svæða.

Undantekningarlaust er allur fjárstofn þar sem smit kemur upp skorinn. Í Fréttablaðinu á miðvikudaginn greindi Birgir Hauksson, bóndi í Valagerði, frá því að niðurstaðan væri honum og hans fólki mikið áfall. Hann þarf að farga þremur hundruðum fjár en á Neðra-Vatnshorni er um 500 dýr að ræða.

Auður segir að ríkið standi straum af fjárhagslegum kostnaði vegna riðuveikinnar, enda er stofninn skorinn samkvæmt fyrirskipan ráðherra að fengnum tilmælum Matvælastofnunar.

„Bóndinn fær bættan þann stofn sem skorinn er niður og kostnað við þrif, sótthreinsun og förgun. Þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir fyrir ríkið, og á viðkomandi bæ skal vera fjárlaust í tvö til þrjú ár,“ segir Auður. Hún bætir við að ferlið sé flókið og tímafrekt. Reglan er að dýrin eru ekki aflífuð fyrr en samningaferlinu er lokið. „En það er ekki hægt að draga það lengi, og gæta verður að velferð dýranna. Sérstaklega í þessum tilfellum þar sem um er að ræða ær og mjög styttist í sauðburð,“ segir Auður.

Tilvikin greindust með gerólíkum hætti

Riðan greindist í tveimur kindum frá bænum Neðra-Vatnshorni í Húnaþingi vestra, í sýnum sem voru tekin samkvæmt skimunaráætlun Matvælastofnunar við slátrun síðastliðið haust. Ekki hafði orðið vart neinna sjúkdómseinkenna.

Bóndinn í Valagerði í Skagafirði fékk nýlega grun um riðuveiki í þremur ám og hafði samband við dýralækni. Kindunum var lógað og sýni send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, sem staðfesti nokkrum dögum síðar að um hefðbundna riðuveiki væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×